Flytja ríkisborgara sína frá Hubei-héraði

26.01.2020 - 10:37
epa08149198 Passengers wearing protective masks walk inside Hankou Railway Station in Wuhan, Hubei province, China, 21 January 2020 (issued 22 January 2020). A new type of coronavirus has infected hundreds of people in the city.  EPA-EFE/YUAN ZHENG CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FEATURECHINA
Stjórnvöld í Japan hafa ákveðið að allir japanskir ríkisborgarar í Wuhan-borg verði fluttir þaðan, kjósi þeir það.  Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, greindi frá þessu í morgun. Nýtt afbrigði af kórónaveiru, alvarlegri lungnabólgu, sem hefur dregið nærri 60 manns til bana í Kína, kom fyrst upp í borginni.

Alls hafa nærri tvö þúsund manns smitast af sjúkdómnum, flestir í Wuhan-borg og Hubei-héraði. Alls eru um fjögur hundruð og þrjátíu Japanar í Hubei héraði. Kína er helsta viðskiptaland Japans og nærri 160 japönsk fyrirtæki eru með skrifstofur í miðborg Wuhan. Þrjú tilfelli kórónaveiru hafa verið staðfest í Japan, það þriðja í gær. Allir þrír höfðu verið í Wuhan nýlega. 

Greint var frá því í fréttum í gær að bandarísk stjórnvöld hafa gert ráðstafanir til að sækja bandaríska embættismenn og ríkisborgara sem eru í Wuhan. Embættismennirnir verði fluttir með flugi á þriðjudag til San Francisco og takmarkað sætaframboð í boði fyrir almenna borgara. Um eitt þúsund bandarískir ríkisborgarar eru taldir vera í Wuhan.

Frönsk stjórnvöld hafa einnig gert ráðstafanir um að flytja franska ríkisborgara frá Hubei-héraði með rútum. 

Bannað er að ferðast til og frá átján borgum í Kína, þar sem hátt í 60 milljónir manna búa, og stjórnvöld hafa ákveðið að takmarka ferðalög Kínverja til annarra landa. Þá hafa almenningssamgöngur til og frá þremur stórborgum utan Hubei-héraðs, þar á meðal Peking, verið takmarkaðar vegna faraldursins og neyðarástandi lýst yfir í Hong Kong.