Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Flytja inn klaka í tonnavís

19.10.2016 - 21:54
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hingað til lands eru fluttir ísmolar í tonnavís frá að minnsta kosti þremur löndum beggja vegna Atlantsála. Klakinn býðst í íslenskum matvöruverslunum á mun lægra verði en sá íslenski. Ábyrgð neytenda er mikil, segir líffræðingur hjá Landvernd. Kolefnisspor innflutta klakans sé stórt.

 

Við könnumst öll við orðatiltækin að flytja kaffi til Brasilíu og sand til Sahara. En nú verðum við að horfast í augu við þá ísköldu staðreynd að menn eru farnir að flytja ísmola til Íslands. 

Í verslunum hér á landi má einnig finna klaka sem fluttir eru inn frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Innflutti klakinn er ódýrari en sá sem er framleiddur hér og getur munað um 40%.
 

„Mér finnst þetta bara alveg snargalið eins og flestum finnst ábyggilega og ég held að frændur okkar í Noregi og Skotlandi hlæi að því að þeir geti selt Íslendingum ís. Þetta er alveg magnað“ segir Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur hjá Landvernd.
 

„Það fylgir því mjög mikil umhverfisáhrif að flytja ís á milli landa því skipin spúa út gróðurhúsalofttegundum. Þannig að það að það sér ódýrara að kaupa klaka sem er frystur í útlöndum og flytja hann með skipum yfir Atlantshafið heldur en að framleiða hann hér heima, maður bara skilur það ekki. Þeir hljóta að fá þetta á einhverjum rosamkilum afslætti í tonnavís sem að eru flutt hingað í stórum frystigámum. Það hlýtur að vera einhver peningaleg ástæða fyrir því að þeir fá þetta ódýrara. Það fylgir þessu mikið og hátt kolefnisspor sem að ábyggilega fer ekkert inn í verðið því það er verið að fá þetta mun ódýrara heldur en hægt er að gera á Íslandi þannig að þessi umhverfiskostnaður er ekki að fara inn í verðið.“

Í þeim verslunum sem innflutti klakinn var til sölu var hann á meira áberandi stöðum en sá íslenski. 

„Þarna er ísinn. Þú ferð beint þangað og þú þarft kannski að hlaupa út um alla búð til að finna þann íslenska þá er ekki hægt að kenna neytendanum um það. Þá er þetta bara markaðssetning og þetta er sett upp viljandi til þess að fólk kaupi frekar þessa afurð.“

Rannveig er ekki viss um að íslenskir neytendur átti sig á því að um innflutta vöru sé að ræða. Fæstir lesi sér til um innihaldslýsingar og upprunaland.

„Ég held að langflestir séu ekkert að pæla í þessu eða hugsa um þetta þannig að það er í raun kannski verið að blekkja fólk svolitið. Ef að við neytendur tjáum ekki óánægju okkar með þessi mál að þá gerist ekki neitt og við sem neytendur höfum mjög mikið vald, við getum bæði ákveðið að kaupa ekki þessar vörur eða bara slegið hnefanum í borðið og sagt: Hingað og ekki lengra. Gefið okkur íslenskar vörur.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV