Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fluttu úr íbúðarhúsi á Hofsósi vegna bensínlyktar

09.12.2019 - 19:32
Mynd: RÚV / Ágúst Ólafsson
Fimm manna fjölskylda á Hofsósi hefur neyðst til að flytja úr húsinu sínu vegna mikillar bensínlyktar. Bensínstöð N1 er handan götunnar og hefur leki úr geymi stöðvarinnar nú verið staðfestur.

Fyrir nokkrum mánuðum fóru hjónin Valdís Brynja Hálfdánardóttir og Rúnar Þór Númason, í Suðurgötu 6 á Hofsósi, að finna fyrir bensínlykt í húsinu. Lítilli í fyrstu, en hún ágerðist stöðugt, þar til þau gáfust upp og fluttu úr húsinu.

Mesta lyktin í svefnherbergjunum

Húsið er á fimm pöllum og svefnherbergin á neðstu hæðinni. „Lyktin er semsagt aðallega hér,“ segir Valdís. „Þetta virðist vera að koma hérna einhversstaðar úr jarðveginum.“ Og hún segir þau hafa flutt sig á efstu hæð og sofið þar til að flýja lyktina. En að lokum hafi þau gefist upp. „Það var náttúrulega orðið þannig að það var ekkert boðlegt að vera í þessu.“

Segjast ekkert vita hvað tekur við

Þau settu sig í samband við Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra í september og þá fyrst fóru hjólin að snúast. „Þannig að þetta er bara komið í ferli núna og við vonumst til að geta flutt inn fyrir jól. Ég held samt að það sé ekki raunhæft. En eins og staðan er núna þá bara vitum við eiginlega ekki neitt. Það er verið að funda og funda meira og á meðan erum við eiginlega bara eitt spurningarmerki. Við eiginlega vitum ekki hvað er næst.“

Megn bensínlykt gaus upp úr skurðinum

Og þau létu grafa skurð við húsið til að rannsaka jarðveginn og Rúnar segir að þá hafi gosið upp megn bensínlykt. „Og þá fannst okkur að það þyrfti ekkert að gera meira. En við ákváðum þó að grafa skurð lengra.“ Og verktakinn sem gróf skurðinn staðfestir þessa lykt og Rúnar segir bensínlyktina aukast eftir því sem nær dragi bensínstöðinni. „Þannig að það koma ekki margir staðir til greina.“ 

Bensínlykt í verslun KS á Hofsósi 

Fólk í nærliggjandi húsum kannast við þessa sömu lykt og útibússtjórinn í verslun KS á Hofsósi segir megna bensínlykt í búðinni við ákveðin verðurskilyrði. Og mælingar hafa sýnt fram á það að það lekur bensín úr tanknum undir bensínstöðinni.

Hvorki olíu- eða eldsneytismengun við Suðurgötu 6

N1 sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að olíutankurinn hafi verið tæmdur og við nánari skoðun hafi komið í ljós gat á honum. Þá hafi heilbrigðiseftirlitið sent tvö jarðvegssýni til rannsóknar hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands. „Niðurstöður úr fyrra sýninu, sem tekið var við Suðurbraut 6, er komið úr rannsókn. Í því greinist hvorki olíu- eða eldsneytismengun. Annað sýni sem tekið var nokkrum metrum frá eldsneytistönkum fór í rannsókn í dag og er beðið niðurstöðu áður en farið verður í frekari aðgerðir,“ segir í tilkynningu N1.

Sætta sig ekki við þessa niðurstöðu

Rúnar og Valdís segjast ekki sætta sig við þessa niðurstöðu og kvarta í raun undan samskiptunum við N1. „Og þau eru vægast sagt sérstök. Það hefur ekkert verið talað við okkur frá þessum yfirmönnum, en það er búið að tala svona utan af hlutunum við okkur.“