Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum þurfa 4 milljarða

Mynd með færslu
 Mynd: Njáll Trausti Friðbertsson
Fundur um flugmál var haldinn á Akureyri í gær. Vel var mætt og margir sem létu sig málið varða. „Þetta snýst um það að fjárfesta til að græða,“ sagði hagfræðingur.

„Viðunandi ástand varaflugvalla er forsenda flugs um Keflavík - ekki afleiðing,“ sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, eigandi Circle Air, á fundi um flugmál sem haldinn var á Akureyri í gær. Allt kapp hafi verið lagt á Keflavíkurflugvöll og umferð um hann hafi þrefaldast frá árinu 2010. Á sama tíma hafi aðrir flugvellir landsins verið sveltir um viðhald og uppbyggingu og samdráttur til þeirra nemi um 60% frá árinu 2007. Það fari ekki saman.

Flugvellir á Akureyri og Egilstöðum þurfi 4,2 milljarða til að verða fullnægjandi. Það séu 4% af núverandi fjárfestingaáætlun Keflavíkurflugvallar til ársins 2021. Afkoma ISAVIA hafi verið 4,3 milljarðar árið 2018 og um fjórir milljarðar árið 2017. Þá minnir hann á að ISAVIA er í eigu skattgreiðenda og á ábyrgð ríkissjóðs. 

Þurfi að fjárfesta til að auka tekjur

Þingmönnum Norðvestur- og Norðausturkjördæma var sérstaklega boðið til fundarins sem Markaðsstofa Norðurlands hélt í gær og var vel sóttur. Á honum hélt líka Jón Þorvaldur Hreiðarsson hagfræðingur erindi þar sem hann fór yfir fjórar hugsanlegar sviðsmyndir í þróun millilandaflugs um Akureyrarflugvöll og ávinning af hverri og einni þeirra. „Þetta snýst um það að fjárfesta til að græða,“ sagði Jón Þorvaldur. Ríkið fjárfesti ekki og peningarnir hverfi heldur sé fjárfest til að ríkið og samfélagið allt fái meiri tekjur. 

Fleiri átti sig á því að skökk byggðaþróun skapi vandamál

Þingmenn tóku til máls að loknum erindum og undir þessi orð tók Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður og sagði merkilega lítið þurfa til þegar litið sé á tölurnar. Logi Einarsson þingmaður Samfylkingarinnar sagðist upplifa vatnaskil í umræðunni um byggðamál, sífellt fleiri á suðvesturhorninu átti sig á því að byggðarþóunin sé svo skökk að hún sé farin að skapa vandamál alls staðar. Hann hefur áhyggjur af því að fjármagnið sem til þurfi sé vanáætlað. Það þurfi að passa sig á að áætlanir séu ekki of skammsýnar í upphafi því það sé ekki dýrt að byggja, það sé dýrt að reka.

Nýr aðgerðahópur stofnaður

Á samgönguáætlun upp á tæpa 200 milljarða til næstu fimm ára er ekki áætlaður neinn peningur í uppbyggingu á Akureyrarflugvelli. Það hafa margir gagnrýnt harðlega. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, skrifuðu nýlega undir viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli. Aðgerðahópur hefur verið skipaður til að vinna að tillögu um endurbætur. Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er í hópnum. Hann segir lykilatriði að hópurinn skili af sér tillögum áður en samgönguáætlun verði samþykkt í mars svo hægt sé að taka tillit til þeirra. Það sé að hans mati tilgangurinn með hópnum.

Hér er hægt að horfa á fundinn.