Flugvél endaði á hvolfi utan flugbrautar

Mynd með færslu
 Mynd:
Einshreyfilsflugvél hlekktist á í lendingu á Haukadalsflugvelli á Rangárvöllum á Suðurlandi seinni hluta dags í gær. Flugmaður var einn í vélinni og slapp ómeiddur. Flugsvið rannsóknarnefndar samgönguslysa lauk upphafsrannsókn seint í gær.

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi segir að vélinni hafi hlekkst á í lendingu á flugvellinum. Hún hafi snúist í lendingunni og hvolfst við það. Hún stöðvaðist svo á hvolfi. 

Ragnar Guðmundsson, stjórnandi rannsóknar á flugsviði rannsóknarnefndar samgönguslysa, staðfestir að vélin hafi hafnað á hvolfi utan flugbrautar. 

Ragnar sagði að lítið væri hægt að gefa upp um tildrög og rannsókn á atvikinu á þessu stigi. Frumrannsókn og gagnaöflun sé nú í gangi.

Upphafsrannsókn hafi verið kláruð seint í gærkvöldi. Þá hafi vélin verið afhent eiganda á vettvangi. Vélin er talsvert skemmd, segir hann.  

Ragnar segir að það sé allur gangur á því hversu langan tíma slíkar rannsóknir taki. Hann segir að mörg flugatvik hafi átt sér stað í sumar, mikið liggi því fyrir hjá nefndinni um þessar mundir.

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi