Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flugvallaróvissa áhyggjuefni fyrir landsbyggðina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að sér þyki stórundarlegt að samgönguráðherra hafi undirritað samkomulag um framtíðarskipan flugvallarmála á suðvesturhorni landsins. Það sé í beinni andstöðu við samþykktir og stefnu flokks ráðherrans. Sigmundur Davíð segir þróunina hafa verið óheillavænlega.

„Það sem maður óttaðist var að þetta yrði afleiðingin. Það er búið að vera markvisst þrengt að flugvellinum. Undanfarin ár, í næstum því tuttugu ár, hefur verið rekin sú stefna að þrengja að flugvellinum úr öllum áttum til þess að geta svo sagt eins og menn segja núna, að það sé orðið svo þröngt um hann að þess vegna verði hann að fara.“ Sigmundur segir þetta hljóta að kalla á viðbrögð innan úr þingi. Núna hljóti menn að sjá þörfina um sérlög um flugvöllinn. Hann gegni mikilvægu hlutverki í samgöngum landsins og tengingu borgarinnar við landið allt.

Varðandi hugmyndina um nýjan innanlandsflugvöll í Hvassahrauni segist Sigmundur hafa talið að niðurstaða lægi þegar fyrir um að hann myndi ekki henta. Bent hafi verið á ýmsa vankanta, jafnt náttúrulega, tæknilega og efnahagslega. Ekkert er þó fast í hendi með nýjan flugvöll í Hvassahrauni. Í fréttatilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og borgarstjóra Reykjavíkur segir að rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli verði tryggt á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur. Gerðar verði ráðstafanir til þess að Hvassahraun komi áfram til greina. Ákvörðun um Hvassahraun verður svo tekin eftir að veðurmælingar og flugprófanir hafa verið gerðar.

Hugmyndir um að flugvöllurinn í Hvassahrauni yrði nýr innanlandsflugvöllur telur Sigmundur Davíð vera blekkingarleik. Hugmyndir Icelandair um flugvöllinn væru að gera hann að nýjum alþjóðaflugvelli, og færa loks allt millilandaflug þangað. „Þetta er áhyggjuefni og ekki hægt, sérstaklega fyrir landsbyggðina að búa við þetta endalaust, viðvarandi óvissu um Reykjavíkurflugvöll. Þrátt fyrir allar tilraunirnar til að komast að einhverri endanlegri niðurstöðu og búa til einhvern stöðugleika, einhverja vissu, varðandi flugvöllinn, þá er þetta alltaf sett af stað aftur, þó með alveg óvenju afgerandi hætti núna.

Fylgi Miðflokksins rýkur upp

Miðflokkurinn hefur rokið upp í síðustu könnunum. Miðað við nýjustu könnun MMR er flokkurinn sá næst stærsti á landinu. Sigmundur Davíð var inntur að því hvað hann teldi að lægi þar að baki.  „Ég held að skýringin sé fyrst og fremst sú að við höldum okkar striki. Við erum ekki að elta dægursveiflur. Við vinnum að því að leita lausna sem við svo boðum og höfum trú á og stöndum með. Ég held að kjósendur kunni að meta það.“