Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flugturninum á Akureyri stýrt á Egilsstöðum

09.10.2019 - 20:49
Flugumferðarstjóri að störfum.
 Mynd: RÚV
Flugturninum á Akureyri verður stjórnað frá Egilsstöðum með nýjum myndavélum og búnaði til að fjarstýra flugumferð. Búnaðurinn er sagður þola íslenskt veðurfar og gæti nýst minni flugvöllum, til dæmis á Norðurslóðum.

Frá klukkan 11 á kvöldin til klukkan 7 á morgnana er flugturninum á Akureyrarflugvelli stýrt frá Egilstaðaflugvelli með aðstoð búnaðarins sem er sagður mjög áreiðanlegur og öruggur.

„Þetta virkar þannig að það eru myndavélar á flugvellinum á Akureyri, úr flugturninum sem taka alla flugbrautina, flughlaðið og fleira. Þannig að sú sýn sem flugumferðarstjórinn eða radíómaðurinn á Egilsstöðum hefur er rétt eins og hann sé að horfa út um gluggann á Akureyri. Hann er líka með myndavél sem hægt er að súma inn á flugbrautina. Svo þetta á að virka eins öruggt eins og hægt er,“ segir Sigrún Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia.

Veðrið ekki vandamál

Íslensk veðrátta getur verið óvægin tæknibúnaði. Sigrún segir að umhleypingar í íslensku veðurfari verði ekki til vandræða. Fjarstýringin getur farið fram nánast hvar sem er og teygt sig á milli landa.

„ Þetta prufutímabil hefur verið að finna réttar myndavélarnar sem standast þessa áraun sem veðurfarið svo sannarlega er. Snjó og frost og þýðu og umhleypinga. Við teljum að við séum komin með eins góðar græjur og við getum fengið. Hugmyndin hjá okkur er að í framtíðinni verði til svona miðlæg miðstöð til að stýra flugumferð á þessum minni stöðum. ,“ segir Sigrún.

Rafmagnsflugvélar henta vel í innanlandsflug

Slíkt gæti hentað á litlum flugvöllum á Norðurslóðum, til að mynda á Grænlandi. Norðmenn stefna á að flugvélar í innanlandsflugi verði aðeins knúnar rafmagni árið 2040. Fyrr í sumar þurfti lítil 
rafmagnsflugvél frá Avinor í Noregi að brotenda í tilraunaflugi með forstjóra fyrirtækisins og samgönguráðherra Noregs innanborðs. Þeim varð þó ekki meint af. Sigrún segir að í náinni framtíð verði rafmagnsflugvélar raunhæfur kostur. 

„Ég myndi halda að rafvélar myndu henta mjög vel á Íslandi. Og gæti verið ódýr og náttúruvænn ferðamáti til að fara á milli staða hérna. Hvað erum við að tala um mörg ár í því? Ja ég vona 2035, 2030 kannski sjáum við einhverjar breytingar,“ segir Sigrún.