Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Flugrúta milli Akureyrar og Keflavíkur

03.07.2015 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur undanfarið skoðað möguleikann á því að bjóða beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar.

 

Áætlað er að ferðirnar verði í tengslum við komur og brottfarir á Keflavíkurflugvelli síðdegis. Hugsanlega yrðu tvær ferðir í viku, síðdegis til Akureyrar og að norðan að morgni dags. Í fréttatilkynningu frá Gray Line segir að þannig gætu farþegar verið komnir til Akureyrar fyrir miðnætti sama dag og þeir lenda. Eins gætu þeir náð síðdegisflugi frá Keflavíkurflugvelli sama dag og þeir leggja af stað frá Akureyri. Þannig yrði að hluta til mætt þörfum farþega í millilandaflugi sem eiga erindi norður eða að norðan.

Að mati Gray Line geta beinar rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar stuðlað að lengri dvöl ferðamanna fyrir norðan og verið ákjósanlegur valkostur fyrir þá sem eiga aðeins erindi þangað og ætla ekki að stoppa á höfuðborgarsvæðinu.

Eyþór Sæmundsson