Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flugritar vélarinnar sendir til greiningar á næstunni

08.02.2020 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson - Víkurfréttir
Boeing flugvél Icelandair, þar sem hjólabúnaður brotnaði í lendingu í gær, er mikið skemmd og hefur verið tekin úr umferð. Vélin var framleidd um aldamót. Flugritar vélarinnar verða sendir til greiningar á næstu dögum.

Rauðu hættustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær eftir að hægra aðalhjól flugvélarinnar hafði gefið sig í lendingu og eldneistar sáust frá hreyflinum. Engin slys urðu á fólki en 166 manns voru um borð í vélinni. Töluverður viðbúnaður var á svæðinu. Sam­hæf­ing­ar­stöð al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra var virkjuð og fólki boðið upp á áfallahjálp. Ragnar Guðmundsson, hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa, stjórnar rannsókn málsins.

„Rannsóknin er bara á frumstigi. Þannig í rauninni er ekki búið að skilgreina hvort þetta flokkist sem alvarlegt flugatvik eða flugslys,“ segir Ragnar.

Rannsóknin gæti tekið eitt til þrjú ár

Flugvélin stöðvaðist á miðri flugbraut og liggur þar enn út á annan vænginn. Unnið er að því að fjarlægja hana af svæðinu. Rannsókn atviksins gæti tekið á bilinu eitt til þrjú ár, að sögn Ragnars. 

„Við tókum flugritana úr vélinni og það á eftir að fara með þá í greiningu. Þessi vél er það skemmd að hún er ekki flughæf eins og er,“ segir hann. 

Sjá einnig: Eins og að vera í svifflugvél þegar vélin hallaðist

Vélin sem um ræðir er 20 ára gömul, framleidd árið 2000. En gæti aldur vélarinnar haft áhrif á lendingarbúnaðinn?

„Það er í raun og veru eitthvað sem við erum ekki tilbúinir að tjá okkur um á þessu stigi. Það er eitt af því sem við munum skoða, hvort að svo sé. En á þessari stundu er allavega ekkert sem bendir til þess. En þetta er bara eitt af þeim atriðum sem við eigum eftir að skoða betur,“ segir Ragnar Guðmundsson.