Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Flugmenn þjálfaðir til að takast á við svona skilyrði“

09.02.2020 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Flight Radar - RÚV
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að flugmenn Icelandair séu þjálfaðir til að takast á við skilyrði eins og voru í Manchester fyrr í dag. Farþegaþota Icelandair þurfti þá að hætta við lendingu vegna óveðursins Ciara sem gengur yfir Bretlandseyjar.

 Vélin lenti í Glasgow en farþegum var nokkuð brugðið eftir flugferðina og neituðu sumir að fara aftur til Íslands með vélinni.  Einn farþeginn lýsti því þannig að þeim hefði verið óglatt eftir ferðina og aðrir hræddir. 

Ásdís segir í svari við fyrispurn fréttastofu að flugstjóri vélarinnar hafi  tilkynnt, eftir að vélin var lent, að til stæði að bíða í Glasgow eftir betri veðurskilyrðum og fljúga þá annað hvort til Manchester eða aftur til Íslands. „Hluti farþega óskaði aftur á móti eftir því að fara frá borði og koma sér á eigin vegum til Manchester. Icelandair hefur á því fullan skilning enda ekki langt að fara landleiðina, þó hluti almenningssamgangna hafi legið niðri í dag vegna veðurs.“

Icelandair hafi boðið þeim farþegum að greiða fyrir ferðalag þeirra til Manchester. „Öðrum farþegum var boðin hótelgisting í Glasgow eins og venja er þegar flugvélar þurfa að lenda annars staðar en á áfangastað.“ Öllum farþegum verði veitt viðeigandi aðstoð og eftirfylgni.  Ferð Icelandair sem átti að fara frá Manchester til Keflavíkur var síðan aflýst og segir Ásdís unnið að því að endurbóka alla farþega í flug á morgun, mánudag.

Ásdís staðfestir jafnframt að atvikið hafi verið tilkynnt til rannsóknarnefndar samgönguslysa, samkvæmt venju og starfsreglum í tilvikum sem þessum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV