Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flugferðum ekki fjölgað frá Spáni

19.03.2020 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki verður bætt við fleiri flugferðum til að koma fólki heim til Íslands frá Spáni. Íslendingar í útlöndum reyna hvað þeir geta til að komast heim. Frá og með deginum í dag eiga allir Íslendingar sem koma til landsins að fara í fjórtán daga sóttkví. 

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við fréttastofu að ekki standi til að fjölga flugferðum. Um 30 sæti hafi verið laus í flugvél Icelandair frá Alicante í gær og fyrradag. Hún segir að reynt verði að standa við flugferðir eins og hægt er í samræmi við ferðatakmarkanir. 

Fjöldi fólks, sem ýmist er búsett á Spáni eða hefur dvalið þar í fríi, hefur breytt ferðaáætlunum sínum til að komast fyrr til Íslands. Á Spáni hafa 640 látist úr COVID-19 og rúmlega 17 þúsund smitast. Þar er útgöngubann líkt og á Ítalíu. Snæfríður Ingadóttir ræddi við farþega sem voru á leið heim frá Spáni í gær.

„Það á að loka hér öllu og það er síðasti séns að koma sér heim. Eru það staðfestar fréttir? Jaa okkur er sagt það, ég þori ekki öðru en að fara heim bara. Þetta er búið að vera ágætt,“ segir Karl Stefán Hannesson. 

Margir hafa ákveðið að flýta heimför. Flugum sem voru áætluð síðar í mánuðinum var flýtt. 

„Við ákváðum að flýta heimferð af því að við vitum ekki hvort það verður flogið eftir tvær vikur þegar við eigum flug. Eruð þið uggandi yfir ástandinu? Ekkert sérstaklega en okkur finnst samt betra að komast heim, að maður sé öruggari heima,“ segir Unnur Harðardóttir.

Óvissan veldur því að margir kjósa að koma sér heim áður en ferðalög verða takmörkuð frekar.

„Þetta er náttúrulega mikil óvissa, þetta er óþægilegt að við vitum ekki hvenær þetta endar og hvernig þetta fer. Auðvitað er þetta óvissa, við værum ekki hér nema af því að við höfum einhverjar áhyggjur og erum ekki alveg örugg með okkur, bara eins og allir aðrir í heiminum. Við erum engir jaxlar, við erum bara eins og hitt fólkið,“ segir Sigurjón M. Egilsson.