Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flugfélög í vandræðum vegna Covid-19

10.03.2020 - 15:33
Mynd með færslu
Þota Norwegian af gerðinni Boeing 737 800 Mynd:
Covid-19 veirufaraldurinn hefur valdið flugfélögum þungum búsifjum. Bókanir hafa dregist mikið saman og í mörgum ferðum eru afar fáir farþegar.

Mikill samdráttur hjá Norwegian

Lággjaldaflugfélagið Norwegian tilkynnti í dag að hætt hefði verið við 3000 flugferðir á næstu vikum. Bókanir hefðu dregist mikið saman vegna Covid-19 veirufaraldursins. Í tilkynningu flugfélagsins segir og að viðræður séu hafnar við verkalýðsfélög starfsmanna um að hluti þeirra fari í launalaust leyfi. Tæplega ellefu þúsund starfa hjá Norwegian.

Mörgu flugfélög fækka ferðum

Fjöldi annarra flugfélaga, þar á meðal Icelandair, hafa fækkað ferðum á næstunni vegna Covid-19 faraldursins. Norræna flugfélagið SAS hefur beðið starfsfólk um að minnka vinnu og laun um 20 prósent næstu þrjá mánuði. Frá þessu er skýrt í norska blaðinu Dagens Næringsliv

Örfáir farþegar um borð

Í Bandaríkjunum hefur American Airlines tilkynnt um sjö prósenta fækkun ferða. Forráðamenn breska flugfélagsins Virgin Atlantic staðfestu í dag að margar flugvélar félagsins flygju með örfáa farþega. Flugfélagið hefði ekki fellt ferðirnar niður vegna reglna Evrópusambandsins sem kvæðu á um að flugfélög gætu misst lendingarleyfi ef þau nýtt þau ekki.