
Flugfargjöld hækkuðu um rúmlega 20% í apríl
Vísitala neysluverðs hækkar um 0,2 prósent í maí, samkvæmt greiningardeild Arion banka og þar hefur meðal annars 3,2 prósenta hækkun eldsneytisverðs sitt að segja. Auk þess má búast við 1 prósents hækkun á verði hjá hótelum og veitingastöðum. Verð á fatnaði hækkar um 1,3 prósent sem rekja má til hreyfingar krónunnar undanfarið.
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 20,6% í apríl, vegna flugumferðar um páskana og gjaldþrots WOW air. Líklegt megi teljast að fargjöld verði enn dýrari í sumar líkt og verið hefur síðustu ár en gera má ráð fyrir að þau hækki meira vegna minna framboðs flugsæta.
Samkvæmt spánni hækkar fasteignaverð um 0,2 prósent að meðaltali í mánuði eða 2,4 prósent á ársgrundvelli.
Í skýrslu greiningardeildarinnar segir að miklar breytingar séu að verða á efnahagsumhverfinu hér á landi. Við blasi meira atvinnuleysi, minni hagvöxtur, framleiðsluspenna og fækkun ferðamanna sem bendi til minni eftirspurnar og verðbólguþrýstings.
Hins vegar séu áhrif þessara þátta á krónuna óljós en hún hefur að mestu haldist stöðug síðustu misseri. Auk þess á eftir að koma í ljós hver viðbrögð atvinnurekenda við launahækkunum verða, einkum meðal þeirra lægst launuðu. Mat greiningardeildarinnar er að áhrifa gæti frekar í auknu atvinnuleysi en hækkandi verðlagi.