Flúðu út þegar hrundi úr lofti og gólf gáfu sig

17.11.2019 - 20:12
Mynd: Fréttir / Fréttir
Fjórir björguðust úr brennandi íbúðarhúsi á Akureyri í morgun. Um tíma var óttast að einn væri inni í eldhafinu, en svo reyndist ekki vera. Húsið, sem er gjörónýtt, verður rifið fyrir miðnætti í kvöld.

Húsið við Norðurgötu þrjú logaði stafnanna á milli þegar lögregla og slökkvilið kom á vettvang á sjötta tímanum í morgun. Það eru þrjár íbúðir í þessu gamla bárujárnsklædda timburhúsi og mikill eldsmatur og erfiðar aðstæður fyrir slökkviliðið.  

„Já það virðist hafa gerst mjög hratt. Þegar við erum kallaðir á staðinn fara reykkafarar strax og reyna að komast inn en urðu fá að hverfa,“ segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri. 

Og þeir flúðu út þegar byrjaði að hrynja úr loftum og gólf í húsinu voru farin að gefa sig. 

„Ja þetta hefur bara eins og ég segi snúist um að sprauta vatni inn um húsið utanfrá, inn um glugga og hurðir,“ segir Ólafur. 

Misstu allt sitt í brunanum

Fjórir íbúar hússins komust fljótlega út en íbúarnir eru fimm. Ekki náðist samband við þann fimmta og um tíma var óttast að hann væri inni í brennandi húsinu. En svo náðist loks í hann í síma og kom í ljós að hann hafði ekki verið heima. Húsið er gjörónýtt. 

„Þetta var bara skelfilegt. Það var mikill eldur, mjög mikill eldur hérna í húsinu. Þannig að þetta var skelfilegt að horfa upp á þetta,“ segir Birgir Skjóldal íbúi við Norðurgötu. 

„Þarna uppi bjuggu ung hjón og það er bara skelfilegt. Þarna missa þau allt sitt bara hreinlega, það fer allt þarna. Það er drengur niðri hérna í suðuríbúðinni, nýbúinn að kaupa hana, er sennilega ekki búinn að vera þarna nema í tæpt ár. Nýuppgerð íbúða eftir því sem ég best veit. Og það er bara allt farið. Það er bara þannig.“

Slökkvistarf stóð fram undir kvöld og svo geti farið að rífa þurfi húsið til að ná að slökkva í glæðum sem leynast um allt hús. Lögregla rannsakar nú eldsupptök en mestur eldur var í annarri íbúðinni á neðri hæð og þar fyrir utan. Viðbragðsteymi Rauða krossins veitti þeim úbúum áfallahjálp sem þess þurftu en ljóst er að þeirra tjón er mikið.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi