Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flúðu flóðbylgju við Breiðamerkurjökul

31.03.2019 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd: Stephen Mantler - RÚV
Stephen Mantler hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Háfjall náði ótrúlegu myndbandi þegar Breiðamerkujökull kelfir en við það myndaðist býsna myndarleg flóðbylgja. Ferðamenn sem voru við jökulinn átti fótum sínum fjör að launa. Vinstri grænir í Suðurkjördæmi vilja að brugðist verði við en Mantler segir ekki oft að það komi svona stór alda.

Mantler birti myndskeiðið á Facebook-síðu Háfjalla þar sem þessi atburður sést vel. Hann segir í samtali við fréttastofu að ferðamennirnir hafi verið vel upplýstir og vitað hvað þeir áttu að gera. „Nei, þeir voru ekki hræddir heldur miklu frekar mjög spenntir.“ Allir hafi farið frá stöndinni og þetta hafi verið mikið ævintýri fyrir þá. Myndskeiðið má sjá hér.

Ekki eru allir jafn hrifnir og Facebook-síða Vinstri grænna í Suðurkjördæmi deilir myndbandinu með varnaðarorðum frá manni sem er skammstafaður ATG en Ari Trausti Guðmundsson er þingmaður flokksins í kjördæminu. „Þetta er mjög alvarlegur atburður. Aldrei má sigla nærri jökli sem kelfir,“ segir í færslunni. Þarna vakni spurningar um lokanir/bannsvæði, um landvörslu og fleira. „Nú þarf viðbrögð því þarna mátti litlu muna.“

Eldfjalla-og náttúrvárhópur Suðurlands deilir einnig myndbandinu. „Kelfing úr Breiðamerkurjökli í Jökulsárlón. Svona atburðir geta framkallað töluverðar flóðbylgjur eins og sjá má á þessu myndbandi.“ Þorvarður Árnason, forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, deilir einnig myndskeiðinu og segir greinilegt að þessa dagana séu vorleysingar í Breiðamerkurjökli. Hann deilir einnig öðru myndbandi sem tekið er á flygildi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV