Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flóttaleiðir úr Skorradal ekki nógu góðar

12.06.2019 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Oddviti Skorradalshrepps segir flóttaleiðir úr Skorradal ekki nógu góðar. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir óvissustigi vegna hættu á gróðureldum á Vesturlandi, sérstaklega í Skorradal. Þetta er í fyrsta skipti sem viðbragðsáætlun frá 2017 er virkjuð. Margir eru í sumarbústöðum í Skorradal. 

„Það eru allir á varðbergi hver gagnvart öðrum að fylgjast með því að menn séu ekki að leika sér með opinn eld eða tæki sem gætu skapað neistamyndun og annað slíkt,“ segir Árni Hjörleifsson, oddviti Skorradalshrepps.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er ekki búist við rigningu á næstu dögum. Smáskúrir gætu komið eftir helgi. 

„Það eru að þorna allir lækir og annað þvíumlíkt hérna meira og minna,“ segir Árni. Menn hafi því þurft að flytja skepnur milli svæða. 

Árni segir það sem geri ástandið verra sé að lítið frost hafi verið í jörðu í vetur og því sé jarðvegur þurrari. Fólki sæki í sumarbústaði og að grilla í góðu veðri.

„Þar liggur nú kannski hætta svolítið mikið. Einnota grill og slíkt, það er eitthvað sem á alfarið að banna við svona aðstæður. Eins að kveikja ekki upp í kamínum þar sem neistamyndun getur verið,“ segir Árni.

Á vef almannavarna er fólk hvatt til að bleyta gróður í kringum hús og huga að brunavörnum eins og slökkvitækjum og reykskynjurum. Árni óttast að flóttaleiðir séu ekki nógu góðar. Skorradalur er 25 kílómetra langur og nokkuð þröngur.

„Ef það gerir eld hér í einhverri sterkri vindátt í hvora áttina sem það fer, þá er það líka spurning um flóttaleiðir fyrir fólk, að það komist í burtu og sjúkrabílar og slökkvibílar komist á staðinn. Við höfum svo sem verið að berjast við það við Vegagerðina að fá fé í veg í kringum vatnið. Það er slóði þar. Þannig að við teljum að það sé flóttaleið sem þurfi að vera með almennilegum keyranlegum vegi allt árið,“ segir Árni.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV