Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Flóttafólkið örþreytt en við góða heilsu

27.02.2018 - 17:17
Mynd: Mynd tekin í Keflavík í dag / Rauði krossinn
„Fólkið er örþreytt en það eru allir við góða heilsu og mikil léttir að vera komin hingað,“ segir Linda Rós Al­freðsdótt­ir, sér­fræðing­ur í Vel­ferðarráðuneyt­inu, en hún var í föruneyti sem fylgdi í dag 21 írökskum flóttamanni til landsins. Fólkið kom frá Amman í Jórdaníu þar sem það hefur hafst við að vondu húsnæði og án ríkisfangs.

„Stundum hefur fólk hætt við á síðustu stundu vegna þess að óvæntar aðstæður hafa komið upp en þetta gekk allt eins og í sögu. Þau flugu frá Amman til Frankfurt í morgun og svo þaðan til Keflavíkur,“ segir Linda.

Þetta eru fimm fjölskyldur, tvær fljúga vestur á morgun og setjast að í Súðavík og á Ísafirði. Þrjár fjölskyldur flugu til Egilsstaða í kvöld, tvær setjast að í Neskaupstað og ein á Reyðarfirði. Í næstu viku kemur jafnstór hópur af írökskum og sýrlenskum flóttamönnum sem sest að á Flateyri og Reyðarfirði.

Sjá má myndband af komu fólksins til Egilsstaða í kvöld í spilaranum hér að ofan.  

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV