Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flóttafólk jaðarsett í heilbrigðiskerfinu

Mynd: No Borders Iceland / No Borders Iceland
Heilbrigðisstarfsfólk sem gaf út vottorð um að albönsk kona væri fær um að fara í flug kastar rýrð á stéttina í heild og dregur úr trúverðugleika hennar. Þetta segir hjúkrunarfræðingur sem unnið hefur að réttindabaráttu flóttafólks hér á landi.

Mál þungaðrar albanskrar konu vakti talsverða athygli í byrjun mánaðarins. Hún var komin 36 vikur á leið þegar henni var vísað úr landi ásamt manni sínum og tveggja ára syni. Rætt var við Önnu Kristínu B. Jóhannesdóttur hjúkrunarfræðing í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Anna Kristín segir að heilbrigðisstarfsfólki sé gert erfitt fyrir að sinna skyldum sínum vegna þrýstings frá lögreglu og Útlendingastofnun.

Fá aðeins lífsnauðsynlega þjónustu

„Ég brenn fyrir jöfnu aðgengi allra að heilbrigðisþjónustunni. Því miður þá er þessi hópur ekki með sama aðgengi og aðrir. Þau hafa bara lagalegan rétt til að fá lífsnauðsynlega þjónustu og þangað til fyrir stuttu þá borguðu yfirvöld aðeins það sem þeim fannst vera lífsnauðsynleg þjónustu,“ segir Anna Kristín.

Anna segir að réttur flóttafólks til að notfæra sér heilbrigðisþjónustu sé ekki jafn, því flóttafólk sé ekki sjúkratryggt. Það eigi ekki að vera í verkahring heilbrigðisstarfsfólks að ganga úr skugga um að sjúklingar séu borgunarmenn fyrir þeirri meðferð sem þeir þurfa.

„Þegar sjúklingur leggst inn hjá mér eða hvar sem er á Landspítalanum þá á ég ekki að þurfa, og ég vil ekki þurfa að hugsa um hvað meðferðin kostar, á þessi manneskja rétt á þessu, er hún búin að borga skatta eða hvað? Við eigum að sinna öllum jafnt og allir hafa rétt til heilbrigðisþjónustu,“ segir Anna.

Bakland flóttafólks sé yfirleitt brotið og það hafi verið á vergangi áður en það kemur hingað til lands. Anna segir þennan hóp mjög jaðarsettan og útsettan fyrir óréttlæti og óheilsu. Hún segir að jafna þurfi rétt fólks til heilbrigðisþjónustu. Þá kallar hún eftir því að aðrar ríkisstofnanir hafi ekki óeðlileg afskipti af málefnum flóttafólks.