Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Flotbúningurinn bjargaði lífi hans

26.01.2012 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Flotbúningur bjargaði lífi íslenska sjómannsins, sem komst af þegar togarinn Hallgrímur sökk. Þetta segir flugstjóri norsku þyrlunnar sem náði honum úr sjónum. Án búningsins hefði maðurinn ekki lifað af í köldum sjónum og endurskin frá búningnum hjálpaði áhöfn þyrlunnar að finna hann.

Olve Arnes, flugstjóri, segir í viðtali við norska útvarpið að upplýsingar úr neyðarsendi togarans, um hvar hann sökk, hafi verið nákvæmar. Togarinn var langt frá landi. Flotbúningur hafi hjálpað björgunarmönnum að finna einn skipverja. Áhöfn þyrlunnar hafi séð endurskinsmerkið á ermi flotgallans og þannig fundið hann.

Arnes segir að án flotbúnings hefði maðurinn ekki lifað lengi í köldum sjónum. Veðrið hafi hamlað björgunaraðgerðum, mikill vindur og öldur allt upp í tuttugu metra hæð. Þrátt fyrir það tókst að hífa manninn um borð í þyrluna. 

Skipverjinn hafi verið vel á sig kominn líkamlega og andlega. Hann hafi getað sagt þeim hvað gerðist. Svo virðist sem skipið hafi sokkið á skömmum tíma.  Óveður hamlaði leitinni og það torveldaði hana líka hversu langt þurfti að fljúga frá landi að slysstað. Þyrlan gat verið á lofti í tæpa fimm tíma án þess að taka eldsneyti.  Það tók þrjá tíma að fljúga báðar leiðir og því gafst aðeins rúmur hálftími til leitar á svæðinu.