Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flórgoði á Tjörninni í Reykjavík í fyrsta sinn

30.05.2019 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Tveir flórgoðar halda nú til á Tjörninni í Reykjavík. Þetta er í fyrsta sinn sem flórgoði sest að á Tjörninni svo vitað er til.

Flórgoðinn var á válista á Íslandi í kringum aldamótin, en hefur náð sér verulega á strik síðan. Undanfarin ár hefur flórgoðum fjölgað hratt á suðvesturhorninu, og þeir gert sér hreiður víða á höfuðborgarsvæðinu. En þetta er í fyrsta sinn sem flórgoði sest að í miðbæ Reykjavíkur. 

„Flórgoðar hafa ekki verpt hér við Reykjavíkurtjörn frá því að menn fóru að fylgjast með fuglalífinu hér. Þeir hafa nú ekki verpt ennþá - við vitum það ekki fyrir víst, en það er ekkert ólíklegt að þetta sé par,“ segir Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá Reykjavíkurborg. Hann segir mjög óvanalegt að flórgoðar setjist að í miðri borg.

„Lengi vel voru þeir bara á Ástjörn í Hafnarfirði en núna hefur þeim fjölgað þannig að eitt parið hefur greinilega ákveðið að koma alla leið hingað á Tjörnina,“ segir Snorri.

Snorri segir koma á óvart að flórgoðinn reyni fyrir sér á Tjörninni, þar sem skilyrðin fyrir hann eru ekki eins og best væri á kosið. „Það vantar dálítið þennan bakkagróður sem flórgoðinn vill hafa til að geta fest flothreiðrið sem hann gerir, en þeir hafa verið að halda sig við litla hólmann hérna, kannski sjá þeir einhver tækifæri þar, það verður spennandi, við erum ekki búin að sjá neitt hreiður enn þá en við fylgjumst með þessu.“

Flórgoðinn er eini fuglinn á Íslandi sem gerir sér flothreiður. Sums staðar hefur verið gripið til þess ráðs að aðstoða hann við varpið með manngerðu varpstæði. Snorri segir ekki hafa komið til tals að gera slíkt á Tjörninni. „Ekki varðandi Tjörnina, það er óneitanlega skemmtileg hugmynd,“ segir Snorri.

„Þetta hefur verið gert á Vífilstaðavatni og Elliðavatni með mjög góðum árangri, flórgoðarnir mættu strax og nýttu sér þetta. Þannig að já, ef að þetta gengur eitthvað illa hjá þeim núna þá kannski spáum við í því að hjálpa þeim, það er alveg vel mögulegt.“