Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flóknar reglur og langt ferli við smávirkjanir

25.05.2019 - 23:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bændur sem vilja virkja bæjarlækinn til að lækka raforkukostnað heima fyrir þurfa að uppfylla sömu skilyrði og um stórvirkjun væri að ræða. Raforkubóndi á Norðurlandi segir að ótrúlegur tími og kostnaður fylgi því að þræða sig í gegnum fjölda reglugerða sem þurfi að uppfylla til að byggja litla virkjun heima á bænum.

Fjöldi smávirkjana er í bígerð víða um land í því skyni að auka raforkuframleiðslu á svæðum þar sem orka er ótrygg og landeigendur hafa verið hvattir til að virkja í þessu skyni. Þetta eru virkjanir sem eingöngu eru ætlaðar til að selja orku inn á dreifikerfi rafmagns, en einnig smærri virkjanir heima á bæjum þar sem bændur framleiða orku til eigin nota í stað þess að kaupa rafmagn.

2-3 ára ferli ef byggja á litla eða meðalstóra virkjun

Það er langt ferli sem þarf að ganga í gegnum ef byggja á litla eða meðalstóra virkjun. „Menn eru eiginlega að fara fram úr sér í þessum málum. Þessu er kastað á milli stofnana fram og aftur og til Skipulagasstofnunar og mönnum er gefinn kostur á að gera athugasemdir og því um líkt. Þetta ferli er farið að taka svona 2-3 ár sýnist okkur,“ segir Eiður Jónsson, raforkubóndi í Árteigi í Kaldakinn og stjórnarmaður í Landssamtökum raforkubænda. 

Settar undir saman hatt og stórar virkjanir eða iðjuver

Þetta segir Eiður að þurfi að einfalda. Og þegar búið sé að virkja og bóndinn vilji tengja virkjunina raforkukerfinu, ýmist í öryggisskyni eða til þess að geta selt umframorku, taki við önnur glíma við kerfið. „Og þar eru svona íþyngjandi reglugerðir í sambandi við öryggisstjórnunarkerfi og fleira og eftirlit. Þessar virkjanir eru settar undir saman hatt og stórar virkjanir eða iðjuver, með þetta öryggisstjórunarkerfi. Þetta er allt of mikill kostnaður fyrir viðkomandi bónda að leggja í. Þannig að það er ekkert víst að það borgi sig.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV