Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Flokkurinn í sárum

21.03.2015 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Árni Páll Árnason stendur á sviði að loknu stuttu ávarpi sínu eftir að tilkynnt var um endurkjör hans sem formanns Samfylkingarinnar 20.3.2015.
 Mynd: RÚV
Samfylkingin er í sárum eftir formannskosninguna en ekki klofin eftir formannskjörið í gær, segir Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor. Hann segir að það liggi ekki í augum uppi hvernig forystan geti unnið sig úr þeirri stöðu sem er komin upp.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að Samfylkingin sé í erfiðri stöðu eftir að aðeins einu atkvæði munaði á Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar, og Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem bauð sig fram gegn honum á landsfundi Samfylkingarinnar.

„Flokkurinn er í nokkrum sárum eftir þessa snörpu atlögu sem var gerð að formannsstólnum,“ segir Eiríkur. „Það er engin launung að þetta kom fólki í opna skjöldu og sumir hafa talað um að framboðið hafi komið fram í einhvers konar launsátri og ekki samkvæmt hinni hefðbundnu skipan í allsherjarkosningum með þessari kosningabaráttu sem menn eiga von á. Og það, ofan á hversu naumur munurinn var, minnsti mögulegi munur, gerir það að verkum að flokkurinn er í töluverðum sárum eftir þessa atburði og það sé í rauninni ekki augljóst hvernig forystan muni geta unnið sig út úr þessari stöðu.“

„Ég myndi nú ekki ganga svo langt að segja það,“ segir Eiríkur aðspurður hvort flokkurinn sé klofinn. „Þetta eru bara tveir einstaklingar og þeir virðast ekki vera fulltrúar fyrir skýrt aðgreindar fylkingar.“