Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Flokkur fólksins fengi fimm þingsæti

01.08.2017 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Flokkur fólksins meira en tvöfaldar fylgi sitt og fengi fimm þingmenn ef kosið yrði í dag. Vinsældir ríkisstjórnarinnar dala en tæpur þriðjungur kjósenda styður stjórnina samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi.

Gallup kannaði stuðning við stjórnmálaflokka í júlí en samkvæmt niðurstöðum þjóðarpúlsins er Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi, 26,5% en Vinstri græn með 21,2%. Nærri 13% styðja Pírata, 11,4% styðja Framsóknarflokkinn og 9,1% Samfylkinguna. Fylgi þessara flokka breytist lítið frá síðustu mælingu en Flokkur fólksins er hástökkvarinn í þessari könnun. Mælist nú með 8,4% en hafði 3,8% fyrir mánuði síðan. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir, Viðreisn og Björt framtíð, eru með minnst fylgi flokka í þessari könnun. Viðreisn með 5,3% og Björt framtíð með 3,7%.

Ef þetta yrði niðurstaða kosninga fengi Sjálfstæðisflokkurinn 18 þingmenn, samkvæmt útreikningum Gallup, Vinstri hreyfingin grænt framboð fengi 14 og Píratar 9. Framsóknarflokkurinn fengi 8 menn og Samfylkingin 6. Flokkur fólksins kæmi 5 mönnum á þing og Viðreisn þremur. Björt framtíð fengi ekki kjörna menn á þing. Ríkisstjórnarflokkarnir fengju því samtals 21 þingmann.

Gallup kannaði líka afstöðu kjósenda til ríkisstjórnarinnar. 32,7 prósent lýsa stuðningi við ríkisstjórnina og hefur fækkað um nærri fjögur prósentustig. 

Könnunin var gerð 12.-31.júlí. 3827 voru í úrtakinu en svarhlutfallið var 52,9%. Af þeim sem svöruðu tóku 80,1% afstöðu til flokka, 9,6% tóku ekki afstöðu eða neituðu að svara og 9,6% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa.

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV