Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flókið verk að hífa Blátind upp úr höfninni í Eyjum

19.02.2020 - 17:28
Mynd: Myndir: Helgi Rasmussen Tórzham / Myndir: Helgi Rasmussen Tórzham
Framkvæmda-og hafnarráð Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum í gær að hífa bátinn Blátind upp til að kanna ástand hans. Báturinn sökk í miklu óveðri sem gekk yfir landið á föstudag. Ráðið segir verkefnið flókið þar sem skipið er þungt og óskar eftir því að það verði unnið af fyllstu varkárni til að koma í veg fyrir frekari skemmdir eða slys.

Báturinn losnaði fyrst af stæði á Skansinum og flaut út í höfnina.  Starfsmönnum hafnarinnar tókst að draga hann aftur að bryggju þar sem hann flaut í um hálftíma áður en hann sökk.

„Starfsmenn Vestmannaeyjahafnar gerðu hvað þeir gátu til að halda bátnum á floti en allt kom fyrir ekki og fór hann niður við Skipalyftukantinn,“ segir í fundargerðinni.

Báturinn hafði verið til sýnis síðan 2018 en hann var smíðaður í Eyjum árið 1947. Hann var meðal annars notaður sem varðskip á Faxaflóa sumrin 1950 og 1951 og var búinn fallbyssu. 

Framkvæmda-og hafnarráð segir að taka verði tillit til margra atriða þegar bátnum verði lyft, meðal annars ástands bátsins. Þetta sé töluvert flókið verkefni þar sem skipið sé þungt. „Ráðið óskar eftir því að unnið sé af fyllstu varkárni til að koma i veg fyrir frekari skemmdir eða slys.“ Þegar skipið sé komið á þurrt verði skemmdir metnar og út frá því ákveðið hvað skuli gera.

Fram kemur í fundargerðinni að annars hafi litlar skemmdir orðið á mannvirkjum bæjarins í óveðrinu. Mikið landbrot hafi þó átt sér stað í Skansfjöru og Viðlagafjöru. Ljóst sé að huga þurfi vel að efnisnámi með tilliti til landbrots.