Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flóðbylgja gáska- og skrýtipopps

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Kjaran - RÚV

Flóðbylgja gáska- og skrýtipopps

26.07.2019 - 13:28

Höfundar

Skeleton Crew er ný plata frá Gísla en fimmtán eru liðin frá því að EMI-risinn gaf út frumburðinn How about that? Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

„Útvarpsvænt um leið og þetta er hæfilega flippað,“ sagði Gísli, Gísli Kjaran Kristjánsson, á sínum tíma um tónlist sína þegar fyrsta plata hans var í farvatninu hjá EMI. Þó að heimsfrægð hafi kannski ekki skilað sér að fullu baðaði Gísli sig í sæmilegasta sviðsljósi nokkur misseri og það skuldlaust. Tónlistin var góð, nákvæmlega eins og hann lýsir henni, og t.a.m. hitaði hann og sveit hans upp fyrir Beta Band á lokatónleikaferðalagi þeirrar mögnuðu sveitar. Vel skipað föruneyti þar, en báðir aðilar lögðu sig fram við einslags skrýtipopp, vel hlustendavænt en með nægilega hátt sýrustig fyrir pælarana, ekki ósvipað þeirri forskrift sem Beck studdist við á tíunda áratugnum.

Vettvangur

Gísli býr nú og starfar á Íslandi og sinnir tónlistinni á ýmsum vettvangi. Hann býr í Höfnum, Reykjanesi, hvar hann byggði sér hljóðver og er platan með öllu tekin þar upp. Gísli gerir allt á plötunni, líkt og Prince, spilar á öll hjóðfæri, tekur upp og hljóðblandar og vísar nafnið, Skeleton Crew í það, en hugtakið fjallar um þann lágmarksmannskap sem þarf til að koma verkum úr höfn.

Ég skrifaði talsvert um Gísla á sínum tíma, fylgdist nokkuð grannt með honum, og fagna því að hann hafi snarað út nýrri tónlist. Skeleton Crew er átta laga plata og sama anda og línu og er að finna á fyrstu plötunni er viðhaldið. Þetta er nýbylgjurokk, gáskafullt og fjörugt, með skemmtilega hnyttnum textum. Platan opnar með „Tidal Wave“, lagi sem Stephen Malkmus hefði verið vel sæmdur af. Grípandi rokkari í millitakti og með ósvikinni hangsaraáru sem þú heyrðir í neðanjarðarrokki tíunda áratugarins. Gísli er á „ameríska“-svæðinu hvað þetta varðar, Pavement-stemning á stundum og „Your personal hell“ hljómar eins og eitthvað úr ranni Lou Barlow eða J. Mascis.

Gísli skiptir plötunni reglulega upp stemningslega, það eru rokkarar en líka ballöður, grín og alvara í bland. Sjá „Broken Arm“, ljúflingslag mikið, bundið í ástarþrá („I have an orchestrated peace of mind/That never goes quiet“). Textar Gísla eru oft mjög skemmtilegir, fullt af línum sem fá mann til að brosa. Gísli er æringi en getur allt eins sett upp alvarlegra fas og báðir pólar eru jafn sannfærandi. Í „Hold on, Romeo“, sem er önnur ballaða, segir t.d. „The world isn‘t fucked/It‘s you“. Að hlusta er eins og að hlýða á samtal tveggja manna, þar sem vinurinn er að reyna að segja öðrum ástkærum vini til, vini sem hefur borið af leið. Sum laganna koma ljúflega í opna skjöldu, hrista hlustandann þægilega til mætti segja. Ekki ósvipað því og þegar kær vinur skvettir óvart á mann svörtu kaffi í galsa og gleði yfir því að sjá mann. Svona „gentle slap in the face“ eins og segir í laginu „Sweet Surrender“. Gísli passar sig enn fremur á að vera aldrei of venjulegur, „Tidal Wave“ er t.d. brotið upp með óvæntum kinnhesti, sveigjur og beygjur sem hljóma samt eðlilega í stóra samhenginu.

Sannfærandi

Semsagt, sannfærandi og heiðarlegt nýbylgjurokk, skothelt eiginlega og vonandi að Gísli hafi tíma til að dæla í okkur fleiri stemmum í framtíðinni

Tengdar fréttir

Tónlist

Nýr tónlistarhraðall ýtir hugmyndum úr vör

Tónlist

Elskir þú tónlist skaltu læra pípulagningar

Tónlist

Leyfið börnunum að koma til Boards of Canada

Tónlist

Tími fyrir tilgerð – dæmdir til að látast