Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fljúga til fjögurra áfangastaða - gengi bréfa hækkar

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Icelandair flýgur til fjögurra áfangastaða í dag; til Lundúna, Boston, Amsterdam og Toronto. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að þetta sé 15% af upprunalegri flugáætlun félagsins. Ekki fæst gefið upp hver sætanýtingin er í þessum flugferðum. Gengi bréfa í Icelandair hækkaði um 5,5% í Kauphöllinni í dag.

Ásdís Ýr segir að alls séu sjö flug í dag; til og frá Lundúnum, Boston og Amsterdam, en vélin sem flýgur til Toronto verður þar í nótt.

„Við erum að vinna að því að setja flugvélar í geymslu en ennþá eru flestar flughæfar. Við höfum ekki verið að gefa upp farþegafjölda eða sætanýtingu nema formlega til kauphallar einu sinni í mánuði. Næst verða flutningatölur birtar 6. apríl þar sem mun koma betur fram hvernig mars mánuður leit út í heild sinni,“ segir Ásdís Ýr í skriflegu svari við fyrirpurn fréttastofu, um fjölda ferða og sætanýtingu í dag.

Viðskipti með bréf í Icelandair námu rúmum 24 milljónum í Kauphöllinni í dag. Gengi bréfa í félaginu hækkaði um rúmlega 5,5% og stendur gengi bréfanna nú í 3,25 krónum á hlut. Gengi bréfanna hefur lækkað um rúmlega 60% á einum mánuði.

Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, sagði í fréttum í gær, að félagið ætli að komast í gegnum þann gríðarlega samdrátt sem það stendur nú frammi fyrir, vegna COVID-19 faraldursins.