Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fljúga drónum í óleyfi

03.07.2019 - 08:10
Mynd með færslu
 Mynd: Mark Romanov
Dæmi eru um að ferðamenn, bæði innlendir og erlendir, fljúgi drónum á stöðum þar sem það er óleyfilegt, til dæmis vegna viðkvæms dýralífs. Starfsmenn Kötlu jarðvangs segjast reglulega fá fréttir um drónanotkun ferðamanna þar sem hún er bönnuð.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er algengt að sjá drónum flogið á ferðamannastöðum þar sem það er bannað. Meðfylgjandi mynd er tekin í Reynisfjöru á dögunum en Reynisfjara er innan Kötlu jarðvangs. Stuðlabergið við Reynisfjöru er heimkynni bjargfugla, þar er iðulega fjöldi ferðamanna og þar er bannað að fljúga drónum. Það sést þó á myndinni að bannið er ekki alltaf virt.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Ferðamaður flýgur dróna í Reynisfjöru.

Virða boð og bönn að vettugi

Á friðlýstum svæðum er landvarsla en Kötlu jarðvangur er ekki friðlýstur í heild sinni þó ákveðin svæði innan hans séu vernduð og þar séu landverðir við störf. Berglind Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu jarðvangs, segir að reglulega berist tilkynningar um drónanotkun. Það sé þó erfitt að hafa eftirlit með drónanotkuninni því Kötlu jarðvangur er stór og telur samtals 9% landsins. Það er enginn starfandi landvörður á vegum jarðvangsins en jarðvangurinn og sveitarfélögin sem að honum koma hafa sótt um stuðning í gegnum Landsáætlun til að hafa landvörð í jarðvanginum en hafa ekki fengið.

Að sögn Berglindar eru dæmi um að ferðamenn noti dróna í óþökk landeigenda og láti ekki segjast þegar þeim er sagt að drónar séu bannaðir á svæðinu og haldi fluginu ótrauðir áfram. „Það er mikilvægt að reglur varðandi dróna séu skýrar og þeim sé fylgt eftir, bæði fyrir landeigendur en ekki síður fyrir náttúruvernd,“ segir Berglind. 

Hörður Bjarni Harðarson, verkefnastjóri hjá Kötlu jarðvangi, segist heyra mikið af drónanotkun á svæðinu. Dæmi séu um að ferðamenn fljúgi drónum fyrir framan upplýsingamiðstöðina í jarðvanginum beint fyrir framan skilti sem á standi að flug dróna sé bannað. Hann segir það einnig gefa augaleið að drónar trufli fuglalíf, til dæmis þegar þeim er flogið nálægt hreiðrum bjargfugla í Reynisfjöru, og það geti valdið skaða. „Dróninn virkar eins og ránfugl, truflunin er gífurleg. Þetta getur raskað ró fuglanna og leitt til þess að ungar falli úr hreiðri,“ segir Hörður. 

Regluverkið alveg skýrt

Reglugerð um notkun fjarstýrðra loftfara tók gildi í desember 2017 og reglur um drónanotkun eru tilgreindar á heimasíðu Samgöngustofu. Reglurnar eru svipaðar hvort sem dróninn er notaður í atvinnu- eða tómstundaskyni. Sem dæmi þarf að auðkenna dróna og skrá þá og ýmsar takmarkanir eru í reglunum. Sem dæmi skal tryggja „að notkun dróna valdi ekki óþarfa ónæði, skaði fólk eða dýr né valdi tjóni á eignum.“ Drónar sem vega minna en 250 grömm eru undanþegnir þessum reglum.

Samgöngustofa gefur út leyfi fyrir drónanotkun. Í fjórðu grein reglugerðarinnar kemur fram að umráðandi fjarstýrðs loftfars beri ábyrgð á að fara eftir reglugerðinni og hann sé jafnframt ábyrgur fyrir tjóni sem dróninn geti valdið. Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir að reglur um drónanotkun hérlendis séu í takt við það sem tíðkist í annars staðar Evrópu og að það sé alveg skýrt. Eftirlit með notkun þeirra sé í höndum lögreglu. 

Í 12. grein reglugerðarinnar er fjallað um takmarkanir á flugi fjarstýrðra loftfara og þar segir „fylgja skal fyrirmælum, takmörkunum og banni flugumferðarþjónustu, lögreglu, Landhelgis­gæsl­unnar, Samgöngustofu sem og annarra yfirvalda um flug fjarstýrðra loftfara á tilteknum svæðum, þar á meðal takmörkunum sem settar eru innan friðlýstra svæða á grundvelli laga um náttúru­vernd eða á grundvelli sérlaga sem um viðkomandi svæði kunna að gilda.“ 

Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að Umhverfisstofnun hafi komið að gerð 12. greinar reglugerðar  um drónanotkun en þar er lögð áhersla á friðlýst svæði. Umhverfisstofnun getur sett sérstakar reglur á ákveðnum svæðum og fólk þarf þá að sækja um sérstakt leyfi til að nota dróna. Sigrún segir mikilvægt að fólk fari að reglum, gæti að fuglavarpi og öðru dýralífi og skemmi ekki upplifun annarra gesta. 

Fréttin hefur verið uppfærð

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV