
Flestir Afganir falla í árásum Bandaríkjanna
Þrátt fyrir friðarumleitanir milli Bandaríkjanna og talibana virðist ekkert lát ætla að verða á þjáningum borgara í landinu. Búist er við að friðarsamkomulagið feli í sér að erlendar hersveitir fari á brott frá landinu gegn loforðum talibana um að erlendir hryðjuverkahópar fái ekki að starfa óáreittir í Afganistan.
Á fyrri helmingi ársins létust 1.366 óbreyttir borgarar í landinu og 2.446 til viðbótar særðust, um 30 prósentum færri en á sama tíma í fyrra. Börn eru um einn þriðji þeirra sem fallið hafa.
Sameinuðu þjóðirnar segja að annan ársfjórðunginn í röð séu hersveitir Bandaríkjanna og stjórnvalda í Kabúl ábyrgar fyrir stærstum hluta mannfalls óbreyttra borgara. Á fyrri helmingi ársins féllu 717 óbreyttir borgarar í hernaðaraðgerðum þeirra og er það 31 prósent aukning frá sama tímabili í fyrra.
Þrátt fyrir að færri óbreyttir borgarar hafi fallið það sem af er árinu segja Sameinuðu þjóðirnar að engu að síður séu tölurnar allt of háar. Þrátt fyrir að stríðandi fylkingar hafi reynt að draga úr mannfalli í röðum óbreyttra borgara hafi það ekki skilað ásættanlegum árangri.
Í fyrra féllu í það minnsta 3.804 óbreyttir borgarar í Afganistan, þar af 927 börn, og aldrei höfðu fleiri fallið á einu ári á þeim 18 árum sem stríðið hefur staðið.