Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flensborgurum snúið frá Ítalíu vegna COVID-19 veirunnar

24.02.2020 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd. Erla Ragnarsdótti - RÚV
Hópur nemenda og kennara á vegum Flensborgarskólans í Hafnarfirði sneri við í Luton í gær, þar sem þau millilentu, á leið sinni til Ítalíu vegna COVID-19 veirunnar. Hópurinn ætlaði að taka þátt í verkefni á vegum Erasmus á Ítalíu en hætt var við verkefnið á meðan hópurinn var í loftinu á leið til Luton.

Sex nemendur og tveir kennarar á vegum Flensborgarskólans í Hafnarfirði taka þátt í alþjóðlegu verkefni um líffræðilegan fjölbreytileika á vegum Erasmus.  Verkefnið er samevrópskt og hafa nemendur frá nokkrum löndum unnið að verkefninu seinustu misseri.

Hólmfríður Sigþórsdóttir, líffræðikennari, er í fararstjórn hópsins. Hún segir í samtali við fréttastofu að í Leifsstöð hafi verið tekin ákvörðun eftir ráðfæringar við Embætti landlækniss, Utanríkisráðuneyti og Erasmus á Íslandi um að halda af stað. Á meðan þau voru í loftinu á leið til Bretlands var tekin ákvörðun meðal forsvarsmanna verkefnisins á Ítalíu að aflýsa því og að fjölskyldum sem ætluðu að hýsa hópinn skyldu ekki gera slíkt vegna smithættu. 

Því þurfti hópurinn að snúa aftur til Íslands, en Hólmfríður gerir ráð fyrir að þau komi hingað til lands síðar í dag. Hún segir að vissulega sé svekkjandi að þetta sé raunin, en að hópurinn sýni þessum aðstæðum skilning.  Framhald verkefnisins sé í óvissu  þar sem óljóst sé hvort og hvernig samgangi á milli landanna verði háttað.

Hópurinn átti að hitta kollega sína á Ítalíu í gær, en um helgina bárust fregnir um að COVID-19 veiran hefði borist til Norður-Ítalíu. Í morgun greindu svo þarlend yfirvöld frá því að fjórir væru látnir vegna veirunnar. 

Að minnsta kosti 152 eru smitaðir af veirunni á Ítalíu og hafa tíu bæir í Lombardy og einn í Veneto verið einangraðir til þess að reyna að hefta útbreiðslu hennar.

Stjórnvöld í Austurríki íhuga ferðatakmarkanir til og frá Ítalíu vegna krónaveirufaraldursins. Í gærkvöld var járnbrautarlest frá Ítalíu meinað að koma til Austurríkis eftir að tilkynning hafði borist um að tveir farþega um borð væru með flensueinkenni.