Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fleiri vilja láta dreifa ösku sinni á Íslandi

01.07.2019 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Umsóknum um leyfi til að dreifa ösku hér á landi hefur fjölgað síðustu ár. Í fyrra bárust sýslumanni um 50 umsóknir. Um helmingur umsækjenda voru erlendir ríkisborgarar sem eru ekki búsettir hér á landi.

Sífellt fleiri kjósa að láta brenna jarðneskar leifar sínar eftir sinn dag og fólk sækist í auknum mæli eftir því að fá að dreifa ösku ástvina við náttúruperlur hér á landi. Sem dæmi má nefna að óskað hefur verið eftir að fá að dreifa ösku við Reynisfjöru, við Gullfoss og Skógafoss. Ekki er leyfilegt að dreifa ösku á stöðum sem þessum. Halldór Þormar Halldórsson hjá Sýslumanninum á Norðurlandi Eystra á Siglufirði segir að uppfylla þurfi viss skilyrði.

„Það er metið í hverju tilviki, en það er æskilegast að farið sé upp í fjalllendi þar sem engin umferð er. Í lögunum segir að ekki sé ætlast til að ösku sé dreift nærri mannabyggðum. Þetta hefur verið túlkað þannig að það megi dreifa ösku yfir sjó eða öræfi, á stöðum þar sem er ekki umferð og ekki nærri mannabústöðum.“

Ísland eftirsóknarvert til hinstu hvílu

Straumur ferðamanna til Íslands hefur aukist mikið síðustu ár og það má leiða að því líkur að það skýri hvers vegna útlendingar myndu kjósa íslenska náttúru til hinstu hvílu.

„Við höfum fengið ýmsar skýringar á þessu. Fólk sem hefur komið hingað eða séð myndir af norðurljósum eða slíkt og finnst Ísland vera spennandi. Í sumum tilfellum er þetta fólk sem hefur komið til Íslands sem ferðamenn, sá sem er látinn eða aðstandendurnir. Það er aðallega fólk frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi, Bretlandi og aðeins frá Hollandi sem sækist eftir þessu,“ segir Halldór.

Helgur reitur á Eyjafirði

Uppi eru hugmyndir um að úti á Eyjafirði verði útbúinn helgur staður þar sem fólk getur fengið að dreifa ösku ástvina sinna. Halldór segir að slíkt þurfi að skoða með tilliti til laga um dreifingu ösku.

„Það er í rauninni ekkert sem hamlar því að dreifa ösku hvar sem er á sjó, á meðan það er ekki innan hafnarsvæðis eða eitthvað slíkt. En ef það er verið að tala um einhvern tiltekinn stað þá þurfa þeir sem dreifa öskunni alltaf að sækja um leyfi fyrir því. Ég sé ekki fyrir mér að það sé neitt sem komi í veg fyrir að það sé sérstakur staður þar sem ösku er dreift meira en annars staðar. Það segir reyndar í lögunum að það megi ekki auðkenna staðinn, en þetta er á sjó þannig að þetta yrði væntanlega merkt með GPS-hnitum,“ segir Halldór Þormar.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV