„Það er þakkarvert að það skyldi enginn vera þar þegar þetta skeður. Ég hef séð ferðamenn hlaða vörðu þarna suður á Fálkabakkanum. Hún var þar í viku, hálfan mánuð, en svo var hún horfin fram af.“
Gríðarmikil bergfylla sem skagað hefur út frá bjargbrúninni á Ketubjörgum á Skaga síðustu ár féll í sjó fram á laugardagsmorgun. Sprungan myndaðist vorið 2015 og stækkaði jafnt og þétt. Talið er að nokkur þúsund tonn af grjóti og jarðvegi hafi hrunið úr björgunum.
„Það var enginn áhorfandi þar,“ segir Ingólfur. „Þetta var bara sekúndubrot sem að sést þegar þetta fellur. Það er enginn nema jarðskjálftamælirinn sem segir til um það þegar það skeður þarna á laugardagsmorguninn.“
Fréttamenn RÚV voru á ferðinni á Skaga í morgun og mynduðu bjargið og það sem hrunið hafði í fjöruna.