Fleiri slys vegna fíkniefnaaksturs en áfengis

11.09.2019 - 11:32
Mynd: RÚV / RÚV
Áttatíu og fimm slys tengd akstri undir áhrifum fíkniefna voru skráð hjá Samgöngustofu í fyrra. Skráð slys vegna fíkniefnaaksturs voru í fyrsta sinn fleiri en slys vegna ölvunaraksturs.

Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar samhæfingarsviðs Samgöngustofu, var gestur í hljóðveri 9 nú í morgun. Fjórir dagskrárgerðarmenn RÚV núll hafa læst sig þar inni til að vekja athygli á söfnunartaki Á allra vörum VAKNAÐU!.  Á allra vörum er í ár tileinkað styrktarsjóðnum Ég á bara eitt líf, sem stofnað var til minningar um Einar Darra Óskarsson sem var bráðkvaddur á heimili sínu vegna lyfjaeitrunar í fyrra. Úr stúdíói 9 senda þau út í hljóð og mynd í þrjá sólarhringa samfellt og ræða við fólk um vandann. 

Tíðni fíkniefnaslysa rauk upp í fyrra

Gunnar segir banaslys tengd akstri undir áhrifum fíkniefna ekki mörg en tíðni slysa hefur rokið upp á síðustu árum.  „Þetta voru á milli 20 og 30 á ári sem voru að slasast fyrir svona tíu árum síðan og svo sjáum við svakalega aukningu núna 2016 til 2018 og þetta eru 85 manns á síðasta ári sem að slösuðust vegna fíkniefnaaksturs.“

Í fyrra hafi í fyrsta sinn fleiri slasast vegna fíkniefnaaksturs heldur en ölvunaraksturs. Þá hafi tíðni slysa vegna ölvunaraksturs einnig aukist undanfarin ár eftir góða niðursveiflu. Það sem af er ári megi þó sjá jákvæða breytingu á tölfræðinni. Fyrstu sex mánuði ársins eru níu skráð tilvik tengd fíkniefnaakstri, samanborið við 85 í fyrra. Ýmslegt er hægt að týna til sem skýrir jákvætt hrun í tölum að sögn Gunnars en gripið var til aðgerða þegar Samgöngustofa tók eftir neikvæðri þróun við lok síðasta árs. 

Vitundarvakning leiddi til jákvæðrar þróunar

„Það sem við gerum er að við hóuðum í stóran fund með nokkrum lögregluembættum, Landspítalanum, nokkrum ráðuneytum, meðferðaraðilum og forvarnarstarfi. Þar sýndum við fram á okkar tölur og lögreglan og Landspítalinn gerðu það sama og við sáum að þetta rímaði allt saman.“

Komum á Landspítalann hafi fjölgað, lögreglan tæki fleiri undir áhrifum og það sama mætti greina út frá skráðum slysum hjá Samgöngustofu. Þar hafi því orðið ljóst að gríðarleg aukning hafi orðið í akstri undir áhrifum fíkniefna. Gunnar segir að í kjölfar fundarins hafi ákveðin vitundavakning orðið á meðal fólks innan þessa geira sem vinni með málaflokkinn alla daga. Ráðgjafar hafi til að mynda aldrei velt fyrir sér þessum anga vandamálsins áður og aldrei bent fólki á að það ætti ekki að aka bíl undir áhrifum en eftir fundinn hafi fólki verið bent á mikilvægi þess að halda sig frá akstri.

„Þetta er kannski neðarlega á áhyggjulistanum meðal foreldra og aðstandenda fólks í neyslu en hins vegar þarf að huga að þessu og við teljum að fólk sé farið að gera það meira eftir þetta, “ segir Gunnar. 

Hér má fylgjast með útsendingunni úr stúdíói 9.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi