Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fleiri kínversk fyrirtæki á Drekasvæðið

30.04.2014 - 19:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Victor Zhikai Gao, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá kínverska ríkisorkufyrirtækinu CNOOC, sem leitar að olíu og gasi á Drekasvæðinu, telur að það verði ekki eina kínverska orkufyrirtækið sem sýni vinnslu þar áhuga ef eitthvað finnst. Fjármagn og sérþekkingu þurfi til verksins.

Victor Zhikai Gao er forstöðumaður Samtaka um alþjóðamál í Kína og var túlkur Deng Xiopings, fyrrverandi leiðtoga Kína. Hann talar reglulega um málefni Kína í erlendum fjölmiðlum víða um heim. Hann var gestur á aðalfundi Íslandsstofu í vikunni. Gao segir mikilvægt að styrkja fríverslunarsamning Íslands og Kína. Íslendingar geti selt Kínverjum vatn og fisk og veitt þeim aðstoð við að nýta græna orku. Einnig geti Ísland orðið mikilvæg höfn fyrir flug og skipasiglingar frá Kína og annars staðar í Austur-Asíu.

Fyrir nokkrum árum var Victor Gao framkvæmdastjóri hjá kínverska ríkisorkufyrirtækinu CNOOC. Fyrirtækið fékk fyrr á þessu ári ,ásamt tveimur öðrum, sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Gao telur líkur á að eitthvað finnist þar miðað við reynsluna á svæðum Norðmanna og Breta. Finnist olía eða gas taki CNOOC þátt í vinnslunni en afurðin hljóti að fara á Evrópumarkað.

„Ég hef trú á því að CNOOC komi á fót starfsemi hér og tel að fleiri stór kínversk olíufélög, einkum Sinopec, gætu sýnt því áhuga að koma hingað og vinna með íslenskum stjórnvöldum. Til þess að stunda viðskipti eins og þessi í þessum heimshluta þarf mikið fjármagn, það þarf tæknilega sérþekkingu og einnig áhuga á samstarfi til lengri tíma.“ WSegir Victor Zhikai Gao.