Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fleiri Íslendingar á Ólympíuleikana?

Mynd með færslu
Ásgeir Sigurgeirsson Mynd: ÍSÍ

Fleiri Íslendingar á Ólympíuleikana?

21.07.2016 - 14:49
Átta Íslendingar tryggðu sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Rio de Janeiro í Brasilíu sem hefjast 5. ágúst. Það gæti hins vegar fjölgað í þeim hópi verði Rússum alfarið meinuð þátttaka í leikunum.

Staðfest var í morgun að rússnesku frjálsíþróttafólki verður ekki leyft að keppa á Ólympíuleikunum nema í undantekningartilfellum með sérstöku leyfi, og þá undir Ólympíufánanum en ekki þeim rússneska. Þessi ákvörðun var tekin í kjölfar víðfeðms lyfjamisferlis í landinu. Að auki hefur Alþjóðaólympíunefndin það nú til skoðunar að meina öllu rússnesku íþróttafólki sem hafði unnið sér inn sæti þátttöku af sömu ástæðu. 321 Rússi hefur sem stendur keppnisrétt í 23 greinum.

Verði niðurstaða Alþjóðaólympíunefndarinnar sem kynnt verður á sunnudag sú að allir Rússar verði dæmdir úr leik kemur upp flókin staða og það stuttu fyrir leikana. Andri Stefánsson, sviðsstjóri á afreks- og ólympíusviði ÍSÍ, segir aðallega þrennt í stöðunni. 

1) Sætum Rússa verður ekki úthlutað og ekkert breytist fyrir utan það að rússneskir íþróttamenn verða ekki á leikunum. Þessi möguleiki er frekar ólíklegur, sérstaklega í ljósi þess að erfitt er að vera með mismörg lið í riðlum í hópíþróttunum. 

2) Sætum verður endurúthlutað í einhverjum greinum. 

3) Sætum verður endurúthlutað í öllum greinum. 

Verði möguleikar tvö eða þrjú fyrir valinu opnast tækifæri fyrir fleiri Íslendinga eins og aðra að komast á leikana. Skyttan Ásgeir Sigurgeirsson var til að mynda nálægt því að komast á leikana og ekki er útséð um það enn.

Það bíða því margir í ofvæni eftir ákvörðun nefndarinnar á sunnudag, ekki síður skipuleggjendur í Ólympíuþorpinu og í kringum leikana en íþróttamenn um allan heim.