Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fleiri hraðakstursbrot eftir hækkun sekta

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hraðakstursbrotum fjölgaði um tvö þúsund á höfuðborgarsvæðinu yfir sumartímann í fyrra þrátt fyrir að sektir hefðu verið hækkaðar og allt að fjórfaldaðar það ár. 

Í fyrra voru 9.595 teknir fyrir of hraðan akstur á tímabilinu maí til ágúst og 8.014 í ár. Árin þar á undan, 2017 og 2016, voru um sjö þúsund hraðakstursbrot á tímabilinu. 

Sektirnar bíta frekar í veskið

Hraðakstursbrotum fjölgaði því um meira en tvö þúsund eftir að sektir voru allt að fjórfaldaðar í maí fyrra. Með hækkuninni átti að auka fælingarmátt. 

Það getur tekið einhvern aðlögunartíma, segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „Það er okkar von að til lengri tíma litið þá muni það verða til þess að ökumenn fari gætilegar, þar sem sektir hafa hækkað talsvert, og munu þar af leiðandi bíta frekar í veskið,“ segir hann. Brotahlutfallið sé þó ekki hátt en helst vilji lögreglan að það sé ekkert.

Sekt fyrir að nota farsíma undir stýri áttfölduð

„Hvort að sektir virki strax fyrr og áður en fólk er búið að þurfa að borga einu sinni, það verður bara að koma í ljós,“ segir hann. Sem dæmi nefnir Guðbrandur að um þúsund ökumenn hafi verið kærðir fyrir notkun farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar, frá því setkir voru hækkaðar í byrjun maí í fyrra og út það ár. „Þetta ár er komið á annað þúsund,“ segir hann. 

Sektin fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar undir stýri var fimm þúsund krónur frá árinu 2006 en hækkaði í maí í fyrra upp í fjörutíu þúsund krónur, og varð þar með átta sinnum hærri.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Á fimmta hundrað hraðakstursbrot við skóla

Guðbrandur segir að lögreglan vilji helst engan grípa. Hún reyni þó að vera sýnileg þar sem það sé viðeigandi og minna sýnileg þar sem það eigi við. 

„Við fáum fjölda ábendinga frá íbúum og sveitarfélögum veghaldara og þá reynum við að staðsetja myndavélar og bíla á þeim svæðum, svo sem, við skóla, leikskóla eða þar sem börn ferðast mikið um.“ 

Greint var frá því í lok vikunnar að lögreglan hefði skráð 419 hraðakstursbrot við grunnskóla síðan skólarnir hófust á ný í síðasta mánuði. Ökumenn mega búast við sekt og í sumum tilfellum að verða sviptir ökuleyfi. Dæmi voru um að ökumenn ækju á meira en tvöföldum hámarkshraða. 

Aukin löghlýðni eða meiri tekjur í ríkissjóð? 

Á fyrstu átta mánuðum ársins sektaði lögreglan á Norðurlandi vestra ökumenn um rúmlega 322 milljónir króna vegna umferðarlagabrota. Rekstrarframlag ríkisins til embættisins á sama tíma er hins vegar um 245 milljónir króna. 

„Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra er því að skila 77 milljónum í ríkissjóð á umræddu tímabili, sem er vel, að ógleymdum þeim sparnaði sem fækkun umferðarslysa hefur í för með sér sem er gríðarlegur og er í raun vart hægt að meta til fjár,“ segir í færslu á Facebooksíðu lögregluumdæmisins

Í ágúst í fyrra var greint frá því að umtalsvert fleiri ökumenn voru sektaðir fyrir hraðakstur á Norðurlandi vestra árið 2018 en fyrir tveimur árum. Fyrstu sjö mánuði ársins 2018 voru tæplega 4.300 ökumenn teknir fyrir of hraðan akstur í umdæminu, samanborið við tæplega 1.700 á sama tímabili árið á undan. Í byrjun þessa mánaðar í ár voru kærur vegna hraðaksturs orðnar 5.077 í umdæminu.