Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fleiri flugfreyjur veikjast

22.09.2019 - 12:04
Icelandair 757-200 TF-FIU
 Mynd: BriYYZ - Flickr
Þrjár flugfreyjur veiktust og þurftu súrefni í flugi Icelandair í síðustu viku. Ein þeirra leitaði til bráðamóttöku eftir heimkomu. Fleiri sambærileg mál hafa komið upp á síðustu misserum. Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri flugrekstrar hjá Icelandair segir að ekki hafi fundist neitt orsakasamhengi milli atvikanna. 

 

Sex mál sem tengjast veikindum flugfreyja um borð í vélum Icelandair eru nú til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Jens segir félagið líta þetta alvarlegum augum.

„Við erum bara að skoða það sem kom upp þar og ræða við fólkið og reynum að veita því þann stuðning sem það þarf. Við reynum svo að greina hverjar mögulegar orsakir eru eins og í öðrum svona tilfellum. Þetta er staðreynd í flugrekstri og ekki bara okkar. Við vinnum þetta innan okkar vébanda og reynum að finna lausnir á þessu en við vinnum þetta líka með öðrum flugfélögum.“

Flugfreyjur sem telja sig hafa orðið fyrir skaða vegna skertra loftgæða um borð undirbúa nú hópmálsókn gegn Icelandair.

„Vandamálið er að við erum ekki búin að finna neitt orsakasamhengi milli þessara atvika sem hafa þó komið reglulega upp hjá okkur. Þau koma líka reglulega upp hjá öðrum flugfélögum. Þetta er sameiginlegt vandamál í flugrekstri. Auðvitað eru aðstæður um borð ekki þær sömu og á jörðu niðri og það kemur ýmislegt upp sem er ekki alltaf hægt að skýra.“

Hann segir atvikin ekki bundin við ákveðnar flugvélar í flotanum og farþegar hafi ekki fundið fyrir sambærilegum einkennum.

„Það er gjörólík upplifun að vera að vinna um borð í flugvélum og vera á hreyfingu og fara fram og til baka um borð í nokkra klukkutíma við þessar aðstæður miðað við það að sitja í sætinu, þetta tengist því eitthvað.“

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV