Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Flatarmál jökla minnkaði um 500 km² á 18 árum

Mynd: Veðurstofa Íslands / Veðurstofa Íslands
Langjökull gæti verið búinn að tapa 85 prósentum af rúmmáli sínu við lok þessarar aldar, gangi spár um loftslagsbreytingar eftir. Samkvæmt þeim gætu Hofsjökull og syðri hluti Vatnajökuls tapað 60 prósentum rúmmáls síns. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem kynnt var í húsi Veðurstofu Íslands í dag. Guðmundi Inga Guðbrandssyni umhverfis- og auðlindaráðherra var afhent fyrsta eintak skýrslunnar.

Í skýrslunni kemur fram að verði hlýnun í samræmi við þær sviðsmyndir sem teikna upp mesta losun gróðurhúsalofttegunda hverfi jöklar á Íslandi á næstu öldum. Vatnajökull mun lifa lengst, að minnsta kosti á hæstu fjallatindum. Íslenskir jöklar náðu mestri útbreiðslu í lok 19. aldar. Síðan þá hefur flatarmál þeirra minnkað um nær 2.000 km². Á þessari öld hefur flatarmálið minnkað um 500 km². Afleiðingarnar hafa meðal annars verið þær að farvegir jökuláa hafa breyst, ný jaðarlón myndast, eldri lón stækkað  og önnur horfið. 

Hlýnun gæti orðið 4°C ef losun er mikil

Hnattræn hlýnun við lok þessarar aldar verður líklega á bilinu 0,3-4,8 gráður og fer eftir því hversu mikið verður losað af gróðurhúsalofttegundum. Meginland mun hins vegar hlýna meira en úthöf og hlýnunin verður mest á heimskautasvæðum norðursins. Aðildarríki Parísarsamkomulagsins frá 2015 ætla að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo að hnattræn hlýnun frá iðnbyltingu verði vel undir tveimur gráðum, jafnvel að takmarka hlýnun við 1,5 gráður.

Í skýrslu vísindanefndarinnar segir að frá síðustu aldamótum og fram til miðrar aldar sé líklegt að hitastig hækki um 1,3-2,3 gráður hér á landi og á hafsvæðinu í kring. „Umfang hlýnunar ræðst af losun gróðurhúsalofttegunda og ef hún verður mikil getur hlýnun til loka aldarinnar náð fjórum gráðum4°C. Gera verður ráð fyrir að afleiðingar á náttúrufar og samfélag af þessum sökum verði verulegar og umtalsverð aðlögunarþörf skapist.“

Súrnun sjávar mest við Ísland

Verði ekki dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda mun súrnun sjávar halda áfram, að því er fram kemur í skýrslunni. Súrnun í hafinu við Ísland er hvað örust á hnattræna vísu, því er líklegt að neikvæð áhrif hennar komi fyrr fram hér við land. Vegna aðstæðna í hafinu er súrnun hér við land miklu örari en að jafnaði annars staðar. Því er líklegt að sjórinn við Ísland hafi súrnað meira eftir iðnvæðingu en heimshöfin að jafnaði. 

Kalkmyndandi lífríki er talið sérstaklega viðkvæmt fyrir áhrifum súrnunar og vegna eiginleika sjávar og lágs sjávarhita er kalkmettunarstig í hafinu við Ísland almennt náttúrulega lágt. Áhrif á tegundir sem eru mikilvægar fyrir efnahaginn gætu birst óvænt, líkt og gerðist í ostrurækt við Kyrrahafsstrendur Norður-Ameríku. 

Lagt er til í skýrslunni að efla strax rannsóknir með það að markmiði að kortleggja hvaða hafsvæði, vistkerfi og tegundir lífríkinu séu líkleg til að verða fyrir hastarlegum efnahagslegum áhrifum af súrnun sjávar. „Tenging súrnunar sjávar við losun gróðurhúsalofttegunda er byggð á traustum fræðilegum grunni. Súrnun sjávar hefur nú þegar haft neikvæð áhrif á lífríki hafsins og skelfiskrækt. Til þess að komast hjá stórfelldum breytingum á lífríki og vistkerfum í höfunum þarf að minnka losun koltvíoxíðs stórlega,“ segir í skýrslunni. Framtíð hafsins ráðist af því hvernig losun manna á koltvíoxíði verði háttað og til hvaða aðgerða verði gripið fyrr en síðar. 

Vilja áhættustýringu vegna breytinga sem geta valdið vá

Loftslagsbreytingar gætu aukið áhættu á sumum tegundum náttúruvár. Í skýrslunni kemur fram að tíðni og umfang vatnsflóða, ofanflóða og gróðurelda og eldgosahætta vegna aukinnar kvikuframleiðslu undir landinu geti aukið áhættuna. Brýnt sé að hugað verði að formlegri áhættustýringu vegna þeirra breytinga sem kunna að verða á náttúruvá. Þá þurfi að bæta mælakerfi, meðal annars á sjávarstöðu.

„Takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um aðlögunarþörf vegna afleiðinga lofslagsbreytinga, og ólíkt nágrannaþjóðum er ekki til landsáætlun í þeim efnum. Lítið hefur verið hugað að samlegðaráhrifum mótvægisaðgerða sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðgerðum til aðlögunar,“ segir í skýrslu vísindanefndar. Frá því að síðasta skýrsla nefndarinnar kom út hafi verið dregið úr almennri vöktun á náttúrufari hér á landi. Það geri öll viðbrögð við loftslagsbreytingum erfiðari því að þau þurfi að grundvallast á haldbærum rannsóknum. 

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá tungu Hoffellsjökuls og hvernig yfirborð hans hefur lækkað á 35 ára tímabili. Myndirnar frá 1982 voru teknar úr flugvél á vegum Landmælinga Íslands en myndirnar frá 2017 voru teknar með flygildi. Á þeim má sjá myndun jaðarlóns og lækkun yfirborðs jökulsins á 35 ára tímabili. Kieran Baxter sá um myndvinnslu.