Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flash-spilarinn á útleið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Flash Player-viðbótin er nú á útleið úr vefvöfrum tæknirisanna en var eitt sinn ein algengasta viðbót veraldarvefsins. Bandaríska fyrirtækið Adobe sem rekur Flash hættir að uppfæra spilarann frá árslokum 2020. Tæknifyrirtæki eins og Google, Microsoft, Mozilla og Facebook vinna nú við að færa vefvafra og forrit yfir á opinn staðal líkt og HTML5.

Flash-spilarinn hefur verið helsta viðbót vefvafra síðan í upphafi aldar. Hann hefur spilað margmiðlunarefni á vefnum eins og myndbönd og tölvuleiki. Flash var notað af vinsælum vefsíðum eins og Youtube og Facebook.

Adobe tilkynnti árið 2017 að hætt yrði að uppfæra og styðja við Flash. Síðan þá hafa vefforritarar dregið verulega úr notkun Flash. Spilarinn hefur hins vegar verið enn lengur á útleið.

Jobs sagði Flash deyjandi tækni

„Flash var aldrei lausn sem lifði eftir snjallsímavæðinguna,“ segir Guðmundur Jóhannsson, tæknisérfræðingur Morgunútvarpsins á RÚV, og bendir á að aldrei hafi verið hægt að nota spilarann á Apple-snjalltækjum. Steve Jobs, fyrrverandi forstjóri Apple, var mjög gagnrýninn á spilarann og sagði hann deyjandi tækni strax árið 2010.

Þau snjalltæki sem notast við önnur stýrikerfi líkt og Android gátu notað spilarann en stuðningi við hann var þó hætt árið 2012 þar sem tækninni hafði fleygt fram og þörfin fyrir Flash á snjallsíma ekki eins mikil.

Fjöldi þeirra sem nota viðbótina hversdagslega í vafranum Chrome, sem er í eigu Google, hefur fallið úr 80 prósentum árið 2014 og niður í um tvö prósent í dag. Chrome notendur fá nú tilkynningu í hvert sinn sem vafrinn er opnaður þar sem varað er við því að Flash hættir í notkun í desember 2020. Aðrir vafrar eins og Mozilla, Microsoft Edge og Safari hafa gripið til álíka breytinga og búa sig undir að færa sig á aðra staðla.

Eykur öryggi notenda

Guðmundur segir þessa breytingu ekki hafa mikil áhrif á hversdagsvafur á vefnum. Hins vegar á þetta eftir að auka öryggi notenda því tölvuþrjótar hafa oft nýtt sér veikleika í óuppfærðum Flash-spilurum til þess að brjótast inn í tölvur fólks og fyrirtækja. Vafrar keyra kóða almennt í lokuðu umhverfi sem hefur ekki aðgang að tölvunni sjálfri sem sé talsvert öruggara en Flash sem gat hleypt tölvuþrjótum til dæmis inn að gögnum í tölvum notenda.