Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flagga regnbogafánum án leyfis stjórnar Trump

08.06.2019 - 22:10
Mynd með færslu
Sendiráð Bandaríkjanna í Seúl prýtt regnbogafánanum. Mynd: EPA
Sendiráð Bandaríkjanna víða um heim hafa beitt ýmsum aðferðum til að flagga regnbogafánanum og sýna þannig stuðning við hinseginfólk, en júní er mánuður hinseginfólks vestanhafs. Er það gert þrátt fyrir að utanríkisráðuneytið hafi ekki veitt leyfi fyrir slíku.

Diplómati í bandarísku utanríkisþjónustunni sem Washington Post ræddi við segir að um eins konar „uppreisn“ sé að ræða.

Stærðarinnar regnbogafáni hangir á byggingu bandaríska sendiráðsins í Seoul í Suður-Kóreu, sem og á konsúlsskrifstofunni í Chennai á Indlandi. Sendiráðið í Nýju-Delí er baðað ljósi í regnbogalitum.

Mörg sendiráð hafa einnig gripið til þess að birta regnbogafánann á heimasíðum sínum, líkt og sendiráð Bandaríkjanna í Vínarborg í Austurríki og í Santiago í Chile. Nokkrir sendiherrar hafa birt myndir af sér þar sem þeir taka þátt í gleðigöngum hinseginfólks.

Breyttist eftir að Pompeo tók við embætti

Undanfarin áratug, frá því að Barack Obama tók við embætti forseta árið 2009, hefur sendiráðum og konsúlsskrifstofum Bandaríkjanna verið heimilt að draga að húni regnbogafánann ef hann var minni en bandaríski fáninn og flaggað fyrir neðan hann á fánastönginni.

Gefnar voru út leiðbeiningar á síðasta ári þar sem kom fram að sækja þyrfti um leyfi hjá æðstu stjórnendum utanríkisráðuneytisins til að draga regnbogafána að húni. Í ár var öllum beiðnum hafnað, ólíkt því sem var í fyrra þegar þær voru allar samþykktar. Flest sendiráð og konsúlsskrifstofur hafa ekki farið gegn hinni nýju stefnu.

Eftir að Mike Pompeo tók við embætti utanríkisráðherra í fyrra varð stefnubreyting hjá ráðuneytinu í málefnum hinseginfólks. Hann aðhyllist evangelíska kristni og telur að aðeins karlmenn og konur eigi að geta gengið í hjónaband.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV