Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Flæður straumharðar vegna hita og leysinga

01.08.2019 - 09:14
Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta var hópur erlendra ferðamanna á sex bílum. Síðasti bíllinn sem ætlaði að fara yfir festist í ánni. Þá sneri einn bíllinn við og ætlaði að aðstoða en festist líka,“ segir varðstjóri lögreglunnar á Húsavík um tildrög björgunaraðgerða í Flæðum norðan Vatnajökuls í gær. Bjarga þurfti þremur mönnum af þökum tveggja jeppa úr vaðinu og var óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar.

„Þetta er sérstakur staður. Þetta er ekki beint árfarvegur, það flæðir undan jöklinum. Það hefur verið mikill hiti og leysingar og Flæðurnar hafa breitt úr sér og eru orðnar straumharðar.“

Hann segir að staðan hafi ekki verið orðin tvísýn. „Það er alltaf tæpt þegar bíll er fastur úti í á en bíllinn var ekki að fara af stað. Björgunarsveitarmenn treystu sér ekki til að aðstoða þá af landi vegna straumsins og þess vegna var óskað eftir aðstoð þyrlunnar, til að tryggja öryggi.“

Varðstjóri lögreglunnar á Húsavík segir að hópurinn hafi fylgt merktri leið. Hópurinn hafi lent í vandræðum vegna þess hve vatnsmikið vaðið var og straumurinn mikill. Fólkið hafi beðið á bílþökunum í einn og hálfan til tvo klukkutíma, en ekki orðið meint af. „Það eru allir við hestaheilsu og gistu á hóteli í Mývatnssveit í nótt.“

Aðspurður hvort bílarnir hafi verið fjarlægðir úr vaðinu segir hann að það gæti hafa gerst í nótt en það sé ekki víst. „Ég get ekki séð að það sé búið að taka bílana upp.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV