Fjörutíu manna vélsleðahópur kallar eftir aðstoð

07.01.2020 - 20:50
Björgunarsveitir leita pilts sem féll í Núpá í Sölvadal í Eyjafirði.
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Allar björgunarsveitir á Suðurlandi og í Árnessýslu voru kallaðar út á áttunda tímanum í kvöld til aðstoða ferðamenn sem voru í vélsleðaferð við Langjökul. Fólkið óskaði eftir aðstoð eftir að veður byrjaði að versna á svæðinu.

Hátt í tvö hundruð björgunarsveitarmenn á snjóbílum og vélsleðum eru nú á leið að Langjökli til að aðstoða fjörutíu ferðamenn sem lentu vandræðum vegna veðurs. 

Björgunarsveitarmenn frá höfuðborgarsvæðinu á snjóbílum og vélsleðum voru einnig kallaðir út. Talið er að fyrstu björgunarsveitarmenn komi á staðinn rétt fyrir klukkan tíu. Beiðni um aðstoð barst um klukkan átta í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg var fólkið í vélsleðaferð við Skálpanes austanmegin við jökulinn þegar veður byrjaði að versna og það komst ekki lengur leiðar sinnar. Ekki er vitað til þess að nokkur sé slasaður en fólkið er orðið hrakið vegna veðurs. 

Vonskuveður er víða á landinu og sérstaklega á vestanverðu landinu. Það hefur haft mikil áhrif á samgöngur. Hellisheiðin og Þrengslin lokuðust um kvöldmatarleytin en vegirnir þar voru opnaðir aftur í kvöld.

Búið er að loka Krýsuvíkurvegi, Mosfellsheiði, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Vatnsskarði, Þverárfjalli, Vatnaleið, Öxnadalsheiði og Lyngdalsheiði. Ófært er á Útnesvegi og milli Hellissands og Grundarfjarðar, á Laxárdalsheiði, í Ljósavatnsskarði og á Klettshálsi. Vegurinn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi er orðinn ófær. 

Fréttin var uppfærð klukkan 21:24.