Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Fjöruhreinsun á Snæfellsnesi og víðar

04.05.2019 - 15:30
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun - Facebook
Snæfellingar, Grindvíkingar og Hornfirðingar hreinsa strendur í dag á Norræna strandhreinsunardeginum.

Einnig hreinsað í Grindavík og Hornafirði

Norræni strandhreinsunardagurinn er í dag. Hér á landi eru strandir á fjórum stöðum á Snæfellsnesi, á Hópsnesi við Grindavík og Suðurfjörur við Hornafjörð hreinsaðar.  Á Snæfellsnesi og í Hornafirði hófst hreinsun í morgun, en Grindvíkingar byrjuðu eftir hádegi. Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri í Grundarfirði var mætt fyrir hádegi í hreinsuninni fyrir vestan.

Sól í heiði og tugir manna að hreinsa

„Þetta eru alls fjögur svæði á Snæfellsnesi, eitt innanbæjar í Stykkishólmi, eitt í Grundarfirði og tvö í Snæfellsbæ. Þar af er annað í þjóðgarðinum, í Beruvík.
Og hvernig er þátttakan?
Hún er mjög góð. Hér skín sól í heiði og það er hægur andvari. Hjá okkur er hátt á þriðja tug manna, 40 í Stykkishólmi og þó nokkrir tugir í Snæfellsbæ. Við erum ánægð með þátttökuna. Hér býr duglegt fólk, sem ber hag svæðisins fyrir brjósti og þetta skiptir okkur miklu máli. Við búum í náttúruparadís og það er mikilvægt að hafa þetta hreint".

Hreinar strendur skipta máli

Og er vaxandi áhugi fyrir því?
„Já það er það. Snæfellingar hafa verið í fararbroddi í mörg ár í umhverfismálum og þetta er hluti af því sem við gerum.  Það er mikill áhugi á þessu. Við búum í samfélögum nálægt sjó og stendurnar og hreinleiki þeirra skiptir okkur mjög miklu máli.
Er mikið rusl og hvers konar rusl er þetta?
Hérna hjá okkur í Grundarfirði þá verð ég nú að segja eins og er að mér finnst ekki vera mikið rusl. Við förum bæði með fram þjóðveginum á svökölluðum Grundarkampi og við förum líka niður í fjöru. Enn sem komið er þá kemur það mér á óvart að ruslið sé ekki meira. Það sem hefur komið upp er járnarusl, spýtnabrak og plast".
 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV