Fjörugasti bókaklúbbur landsins

Mynd: ruv.is / ruv.is

Fjörugasti bókaklúbbur landsins

18.12.2019 - 21:04

Höfundar

„Það er töff að lesa" eru einkunnarorð yngsta og líklega fjörugasta bókaklúbbs landsins sem hélt jólafagnað sinn í gær. Fyndnar og spennandi bækur eru í sérstöku uppáhaldi hjá klúbbnum.

Í bókaklúbbnum eru drengir í 5. bekk Fossvogsskóla í Reykjavík. Hugmyndin kviknaði þegar mæður þeirra stofnuðu bókaklúbb og vildu þeir sýna að þeir væru engir eftirbátar mæðra sinna í lestri. Ekki skemmdi fyrir að boðið var upp á veglegar veitingar í hverjum hittingi.

„Það byrjaði upphaflega sem syrpuklúbbur, að hittast og skiptast á Syrpum en svo lesa þeir líka meira en bara Syrpur, líka bækur. Þannig að þetta þróaðist yfir í bókaklúbb,“ segir Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir, móðir eins drengjanna og velunnari klúbbsins.

Drengirnir hittast mánaðarlega og lesa saman og í gær var komið að jólahittingnum. Þá mætti einn af þeirra uppáhalds rithöfundum, Bjarni Fritzson, og las upp úr nýjustu bók sinni um ævintýri Orra óstöðvandi.

Miklar framfarir frá stofnun

Að lestri loknum voru drengirnir leystir út með bókum og var ekki annað að sjá en að þeir væru hæstánægðir með innihaldið. En hvað finnst þeim skemmtilegast að lesa? „Bara alls konar bækur spennandi og...fyndnar bækur,“ segja þeir Úlfur Þór og Guðjón Atli. Efst á óskalista þeirra fyrir jólin  eru bækurnar Orri Óstöðvandi og Minn eigin tölvuleikur.

Mæður drengjanna segja þá hafa sýnt miklar framfarir í lestri frá því klúbburinn var stofnaður. „Við erum líka að lesa, mömmurnar, og þá sjá þeir okkur að lesa og það er bara mjög töff að lesa,“ segir Sólrún Dröfn Björnsdóttir.