Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjörug og skemmtileg ljóð sem dansa

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Fjörug og skemmtileg ljóð sem dansa

26.01.2020 - 18:29

Höfundar

„Sýningin er ekki gallalaus en hún er fjörug og skemmtileg, með mikið af hestum, köttum, uppfull af leikgleði og dramatík og ég mæli eindregið með henni fyrir aðdáendur Gerðar Kristnýjar,“ segir leikhúsrýnir um sýninguna Dansandi ljóð sem nú er á fjölum Þjóðleikhússins.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Þegar vorar ryðjast brúðkaupsgestir sem hafði fennt inni út með marsipankökubita í munnvikunum, nóttin er hestur án knapa, hamingjan herpist um hálsa og yfir ævina byggjum við okkur hús úr vonum og vanefndum, meðan við minnumst ilmandi snjókornanna sem falla yfir æskuminningar úr Safamýrinni.

Vetur, vor, landslag, sterkar tilfinningar og myndlíkingar setja svip sinn á Dansandi ljóð, sýningu sem Edda Þórarinsdóttir leikstýrir í Þjóðleikhúskjallaranum, og það er ekki við öðru að búast því hin dönsuðu ljóð eru eftir Gerði Kristnýju, og það er því nóg af vonum, vonbrigðum, hestum og köttum. Margrét Kristín Sigurðardóttir er lagahöfundur sýningarinnar en hún spilar á píanó og sjö leikkonur koma fram, þær Þórey Sigþórsdóttir, Vilborg Halldórsdóttir, Sólveig Hauksdóttir, Júlía Hannam, Rósa Guðný Þórsdóttir, Bryndís Petra Bragadóttir og Helga E. Jónsdóttir, og þá eru ekki einu sinni allar konurnar í sýningunni upptaldar en Helga Björnsdóttir hannaði búningana og Ingibjörg Björnsdóttir og Ásdís Magnúsdóttir sömdu sviðshreyfingar.

Þessar konur eiga það allar sammerkt að vera úr hópnum Leikhúslistakonur 50+, og þá eiga þær það væntanlega líka sammerkt að vera allar orðnar fimmtugar, þó að margar þeirra gætu komist upp með að halda öðru fram. Það er ekki oft sem þessi reynslumikli hópur fær góð hlutverk og það bitastæðasta sem konur á þessum aldri leika er yfirleitt það sem þær skapa sjálfar. Þessi sýning er ævisaga konu sem byggist á ljóðum Gerðar, samankrull æskuminninga, hugleiðinga um ástina, heimilið, barneignir, skilnað og dauðann, sem tekur um það bil klukkutíma í flutningi.

Það er miklu sem er pakkað í þennan stutta tíma í þessu litla rými, til þess að gæta sanngirni í þessari gagnrýni verð ég eiginlega að taka fram að Þjóðleikhúskjallarinn, þrátt fyrir að leikhús sé í titlinum, hentar frekar illa fyrir flestar sýningar. Súlurnar á miðju gólfinu skerða það rými sem listamennirnir hafa til að vinna með, og í hefðbundinni sýningu þá þýðir það að allt þarf að gerast innan mjög þröngs ramma. Rýmið hefur þó sína kosti, það getur verið að gaman að sjá nándina og ef maður hefur skemmtilegt sjónarhorn sem áhorfandi er hægt að fylgjast með leikkonunum í gegnum speglana á súlunum. En það er ekki spurning í mínum huga að verk með átta flytjendur á sviði myndi njóta sín betur í öðru rými, til dæmis Tjarnarbíói, en líka Kassanum í næstu götu.

Einn aðalstyrkleiki sýningarinnar felst í leikgleði flytjenda sem koma á sviðið í kjólum og kímonóum sem vísa til hefðbundinna íslenskra kvenþjóðbúninga. Þær eru líka með grímur sem þær grípa til í sumum atriðum, sem mér þótti persónulega frekar hallærislegar. En þetta er sýning sem leyfir sér að vera hallærisleg og hefur húmor fyrir sjálfri sér.

Dansandi ljóð er eins og titillinn ber með sér ljóðaflutningur sem er brotinn upp með dönsum. Ljóðin standa fyrir sínu, bæði harmþrungin og húmorísk, en dansarnir eru ekki eins vel heppnaðir og annar flutningur. Það getur verið að hópurinn þurfi að æfa sviðshreyfingarnar meira og þarna getur maður ekki annað en haft samúð með hreyfihönnuðunum því það er erfitt að nýta þetta afmarkaða rými rétt með svona mikinn fjölda á sviðinu. Mögulega myndi það styrkja sýninguna að fækka flytjendum, en betra væri að gefa þeim stærra svið og lengra æfingatímabil. Færri og skýrari hreyfingar myndu eflaust líka bæta verkið talsvert.

Sólveig Hauksdóttir átti glæsilega einræðu þegar hún flutti ljóðið Hljóðskraf, en annars áttu flestar leikkonurnar á sviðinu góða spretti, þótt kannski mætti gera sum leikræn tilþrif eilítið hógværari. Það slípast eflaust til á næstu sýningum. Sýningin er ekki gallalaus en hún er fjörug og skemmtileg, með mikið af hestum, köttum, uppfull af leikgleði og dramatík og ég mæli eindregið með henni fyrir aðdáendur Gerðar Kristnýjar.

Tengdar fréttir

Leiklist

Djöfullinn dansar í Þjóðleikhúsinu

Leiklist

Kartöflurækt og rangfeðrun í leikhúsi

Leiklist

Leikhúsið á að hjálpa til við uppeldi barna

Leiklist

Segir Jóhanni illa sinnt í íslenskum leikhúsum