Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórir vegir vaktaðir vegna snjóflóðahættu

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Fjórir vegir eru vaktaðir vegna snjóflóðahættu. Verkefnastjóri segir nokkuð ljóst að snjóflóðahætta sé víðar þar sem engar ráðstafanir hafi verið gerðar. Vegfarendur geta fengið sms frá Vegagerðinni þegar snjóflóðahætta myndast. Vegurinn um Ljósavatnsskarð fer í vöktun næsta vetur.

Mest hætta á snjóflóði er á veginum um Súðavíkurhlíð, Flateyrarvegi, veginum um Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarvegi. Þeir eru vaktaðir af Veðurstofunni sem gefur út spá um snjóflóðahættu. Árið 2014 gátu vegfarendur óskað eftir því að fá SMS frá Vegagerðinni væri snjóflóðahætta í Súðarvíkurhlíð.

Geir Sigurðsson, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni á Ísafirði, segir verkefnið hafa gengið afskaplega vel; „Vegfarendum virðast líka þetta bara mjög vel. Síðan bættum við Ólafsfjarðarmúlanum við árið 2018 og svo Flateyrarvegi nú undir lok vetrar 2019“.

Nokkur hundruð manns eru skráðir á lista og fá viðvörunarskilaboð þegar hætta myndast. Tilgangurinn segir Geir vera að takmarka umferð um vegina. Að fólk fari ekki um þá að óþörfu, það gefi auga leið að þá sé minni áhætta á að eitthvað gerist.

Það sem af er vetri hefur Súðavíkurhlíð sex sinnum verið lokað vegna snjóflóðahættu, Ólafsfjarðarmúla átta sinnum og Flateyrarvegi fjórum sinnum. Siglufjarðarvegur hefur fjórtán sinnum verið á óvissustigi en tvisvar sinnum sagður á hættustigi og lokaður.

Snjóflóðahætta víðar

Það sé þó snjóflóðahætta á vegum víða um land þótt vegirnir séu ekki vaktaðir. Vegir þar sem ráðstafanir hafi verið gerðar, bæði með mælingum og snjóflóðavörnum séu aðeins þeir fjölförnustu. „Svo er náttúrulega fullt af stöðum út um allt land þar sem er snjóflóðahætta en engar ráðstafanir gerðar, það er nokkuð ljóst“ segir Geir.

Það sé hægt að gera betur í þessum málum eins og öðrum, allt snúist þetta um að forgangsraða fjármunum. Snjóflóð féll til að mynda á veginn um Ljósavatnsskarð í desember og var veginum lokað í kjölfarið. Þingeyjarsveit og lögreglan hafa nú óskað eftir því að vegurinn um Ljósavatnsskarð fari í sama eftirlit og vegirnir fjórir. Það megi því reikna með að mælingar á snjóflóðahættu hefjist þar næsta vetur.