Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Fjórir syntu yfir Þingvallavatn

27.08.2012 - 14:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórir menn syntu yfir Þingvallavatn um helgina. Þetta voru þeir Kristinn Magnússon, Árni Þór Árnason, Hálfdán Örnólfsson og Benedikt Hjartarson.

Fjórmenningarnir lögðu í hann frá Mjóanesi og tóku land við Markarvík fimm kílómetrum síðar. Sundið gekk að óskum þó að þung alda hafi komið á hlið sundmannanna megnið af leiðinni. Vatnið var 10 gráðu heitt. Sundmennirnir nýttu sér engin hjálpartæki heldur voru í hefðbundnum sundbuxum með sundhettu og sundgleraugu. Hálfdán Örnólfsson kom fyrstur að Markarvík á tímanum 1 klukkutími og 40 mínútur en svo komu félagar hans inn einn af öðrum á næstu tíu mínútunum. 

Þingvallasund er draumur margra sundmanna en aðeins fimm menn hafa synt yfir Þingvallavatn. Fylkir Þ. Sævarsson synti svo vitað sé fyrstur yfir Þingvallavatn sumarið 2001 og félagi hans, Kristinn Magnússon, synti það svo árið eftir og aftur núna. Þingvallasund er númer 17 í röðinni á alþjóðlegum lista yfir áhugavert sund. Það þykir áhugaverðara en sundið yfir Ermarsund sem er í 18. sæti á þessum lista.

Sundmennirnir að leggja í hann.

Vatnið mældist tíu gráðu heitt.