Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórðungur setur kokteilsósu á pizzu

17.05.2019 - 14:00
Innlent · Matur
Pizza á pizzabakka.
 Mynd: ilker  - Freeimages
Landsmenn skiptast í tvær fylkingar varðandi ágæti þess að setja kokteilsósu á pizzu. Samkvæmt nýrri könnun MMR fá 24 prósent Íslendinga sér kokteilsósu á pizzu en 76% gera það ekki. Nokkur munur er á svörum eftir stjórnmálaskoðunum.

Ungt fólk er líklegra „til að dekra flatbökuna með majónesblöndunni vinsælu“ eins og segir í fréttatilkynningu frá MMR. Alls sögðust 35% svarenda á aldrinum 18-29 ára fá sér kokteilsósu með pizzu.

Þeir sem eldri eru virðast minna hrifnir af sósunni. Þeir sem eru á aldrinum 30 til 49 ára fá sér sósuna með pizzu í 27 prósent tilfella, 16% þeirra sem eru á aldrinum 50-67 ára en einungis 6 prósent svarenda 68 ára eldri fær sér kokteilsósu með pizzu.

Íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að borða kokteilsósu með pizzu eða 30% en þeir sem búa á höfuðborgar svæðinu eða 20%.

Stjórnmálaskoðanir hafa líka áhrif á það hvort landsmenn fái sér kokteilsósu með pizzunni. Þeir sem styðja Pírata (30%), Framsókn (28%) og Flokk fólksins (25%) eru líklegri til að velja þann kost en stuðningsfólk Samfylkingar (14%), Viðreisnar (16%) og Miðflokks (19%).

Alls tóku 934, 18 ára og eldri, þátt í könnun MMR sem fór fram 11. til 15. febrúar.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV