Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórar stórgóðar fordæmalausar seríur í sóttkvína

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV

Fjórar stórgóðar fordæmalausar seríur í sóttkvína

22.03.2020 - 14:47

Höfundar

Við lifum á tímum fordæmalauss sjónvarpsgláps þar sem tugir frábærra þáttaraða eftir fremsta kvikmyndagerðarfólk heims eru aðeins einum fjarstýringarsmelli frá okkur. En einu sinni þurfti fólk að bíða í heila viku milli þátta og vissar þáttaraðir, sem þá voru án fordæma, ruddu brautina fyrir gósentíðina núna. Hér eru fjórar af þeim. 

The Sopranos

Mynd með færslu
 Mynd: HBO - The Sopranos

Upphaf núverandi gullaldar má rekja til bandarísku kapalstöðvarinnar HBO og sjónvarpsþáttanna um kvíðna mafíósann og góðlega hrottann Tony Soprano sem hófu göngu sína 1999. Þar var tekinn nútímalega snúningur á gömlum geira þegar vænni skvettu af geðrænum kvillum og karlmennskukrísu þúsaldarinnar var sprautað inn í gamlar mafíósaklisjur. James Gandolfini í hlutverki Tony Sopranos tókst að sveiflast milli sjarmerandi töffara, lúsers með pabbakomplexa og siðblinds ofbeldishrotta á örfáum sekúndum, og persónan er ennþá fyrirmyndin að HBO-andhetjunni sem nú er orðin klisja.

Handritsskrif og tæknileg hlið þáttanna var í allt öðrum klassa en fólk átti að venjast úr sjónvarpi og leikaravalið kinkaði kumpánlega kolli til Goodfellas meistara Scorseses og eldri mafíumynda. Sopranos settu ný viðmið í listrænum gæðum en ekki síður breyttu þeir því hvers konar sögur var mögulegt að segja á litla skjánum. Líkt og þegar hippakynslóðin ruddi sér til rúms í kvikmyndum í „nýju“ Hollywood, varð skyndilega hægt að segja sögur þar sem bófar, fátæklingar og skúrkar voru í aðalhlutverkum, þar sem siðferðið var margrætt og grátóna, og engin skörp skil milli „góðu“ og „vondu“ kallana.

The Office

Mynd með færslu
 Mynd: BBC - The Office

Á undan Curb Your Enthusiasm, Klovn og Louie var Office. Ekki ameríska, þó það sé vissulega frábært. En löngu, löngu áður en Ricky Gervais varð óþolandi edgelord-inn sem hann er í dag tókst honum að umbreyta gamanþáttum svo það bergmálar enn þann dag í dag. Það sem Ricky Gervais og Stephen Merchant sem skrifuðu Office gerðu fyrir grín var að vegsama vandræðalegheitin og hefja kjánahrollinn upp á stall.

Skyndilega voru skrítni vinnufélaginn sem talaði aðeins of mikið um konuna sína í kaffitímum, og óþægilegi frændinn í fermingarveislunni, orðnir aðalpersónurnar í gríninu. Í stað þess að dósahlátur segði til um hvenær ætti að skella upp úr í lok brandara fengum við öfgakennd mannleg samskipti og stemmningu sem dróst á langinn, þar sem hláturinn var ískrandi losun sem sló á taugarnar.

Annað sem Office gerðu var að þeir opnuðu nýja grínvídd; mölvuðu fjórða vegginn svo harkalega að hann hefur varla verið endurbyggður síðan. Svokallaðar feik-heimildarmyndir (mockumontary) höfðu vissulega verið gerðar áður, til dæmis Spinal Tap og Best in Show, en áhrif þessarar frásagnartækni áttu eftir að umbreyta því hvernig grínþættir voru skrifaðir. Skyndilega var á stuttum tíma hægt að byggja upp mjög sterka aukakarektara með því að leyfa þeim að tjá hvernig þeim raunverulega leið beint og milliliðalaust í myndavélina. Breska útgáfan eru aðeins tvær sex þátta seríur en það er líka skammlaust hægt að mæla með bandarísku útgáfunni sem er lengri og algjörlega frábær. Það mætti líka segja að þar sé ákveðinn nýr taktur sleginn í amerísku gríni sem framleiðandinn Michael Schur hefur hamrað síðan, í þáttum eins og Parcs and Rec og Brooklyn 99.

The Wire

Mynd með færslu
 Mynd: HBO - The Wire

The Wire eru bestu sjónvarpsþættir sem gerðir hafa verið. Það er ekki til umræðu hér. Það sem á yfirborðinu virðist vera lögguþáttur sem gerist í Baltimore fjallar um svo miklu miklu meira; deyjandi iðnaðarborgir ameríku, ónýtt menntakerfi, löngu tapað stríð gegn eiturlyfjum, tap einstaklingsins fyrir kerfinu, gnístandi eyðileggingarhjól kapítalismans, eymd sem erfist milli kynslóða og allan þann mannlega harmleik sem hag- og stjórnkerfi einnar borgar getur á borð borið. En þrátt fyrir þetta hlaðborð af boðskap og greiningu er aldrei sápukassi í augsýn, og kjánahrollur og klisjur víðs fjarri.

Í upphafi fylgjumst með lögregludeild sem reynir að klófesta höfuðpaurinn í neti eiturlyfjasala í fátækrahverfum Baltimore. En sjónarhornið sker sig þó strax úr með því að sýna okkur jafn mikið frá heimi eiturlyfjasalanna og löggunnar; þeir eru ekki sölumenn dauðans heldur börn og unglingar sem alast upp í umhverfi sem gefur þeim engar aðrar bjargir. Eftir því sem á líður víkkar svo umfang þáttanna og kemur inn á stjórnmálin, verkalýðsbaráttu hafnarstarfsmanna, alþjóðlegu dópsalana efst í keðjunni, fjársvelta fjölmiðla, handónýtt menntakerfi og hvernig þetta allt tengist í vistkerfi borgarinnar. Persónugalleríð er gríðarstórt og allt margræðar manneskjur af holdi og blóði.

Þættirnir eru hugarfóstur blaðamannsins Davids Simon og fyrrverandi lögreglumannsins Ed Burns, sem báðir höfðu fylgst með glæpagengjum Baltimore-borgar og getuleysi skrifræðisins og lögreglunnar til að taka á þeim um áratugaskeið. Mikið af aukapersónum þáttanna eru í raun leiknar af „alvöru fólki“ úr Baltimore, fyrrverandi löggum, klerkum og dópsölum. Handritsskref í þáttunum eru mörgum skrefum framar öðru sem sést hefur í miðlinum og á meira skilið við marglaga skáldsögur en vonda kall vikunnar. Wire voru aldrei jafn vinsælir og HBO-flaggskipin Sopranos og Six Feet Under frá sama tímabili, og átti að hætta framleiðslu þeirra eftir þriðju seríu þar sem þeir þóttu ekki svara kostnaði. Sem betur fer fyrir menningarsöguna hafði einhver á efstu hæð HBO nógu mikinn smekk og kjark til að leyfa þeim að klára þættina sómasamlega. 

Það eina er að það tekur eilítið lengri tíma en venjulega að komast inn í þá, það er mikill fjöldi persóna og engar shortcuts eða klisjuleg endurlit til að hjálpa þér. En eftir svona fjóra, fimm þætti sogastu inn og það er ómögulegt að hætta fyrr en eftir allar fimm seríurnar. Það sem meira er að vegna margbrotins söguþráðarins launar hann enduráhorf ríkulega. The Wire er því bæði for- og eftirdæmalaust sjónvarp og þeir sem eiga það eftir ættu að horfa á það eigi síðar en núna, og aðrir að nýta dauða tímann í að horfa á það aftur.

Twin Peaks

Mynd með færslu
 Mynd: NBC - Twin Peaks

Auðvitað var súrrealistinn David Lynch áratug á undan byltingunni í því að færa framleiðslugæði kvikmyndanna og margræðni, skrítileika og yfirnáttúrulega frásagnartækni inn á heimili landsmanna. Twins Peaks var í raun einhvers konar slys sem varð vinsælt á undrahraða og eyðilagt jafnfljótt aftur gráðugum peningamönnum meginstraumssjónvarpsins sem höfðu enga hugmynd um hvað þeir voru með í höndunum. Ráðgátan um morðið á Lauru Palmer hertók heimsbyggðina vorið 1991. Sjálfur var ég níu ára gamall að skipuleggja gistingu hjá frænda með áskrift að Stöð 2 til stelast að horfa á þáttinn sem allir voru að tala um og var stranglega bannaður börnum, Tvídranga.

Í Twin Peaks blandar David Lynch saman rökkurlegri spæjarasögu við taktskrítinn húmor, melódramatíska sápuóperu, yfirnáttúruleg hryllingsminni og bandaríska smábæjarrómantík á hátt sem ekki hefur verið leikinn eftir síðan. Hann blætisgerir kaffi og kökusneiðar og uglur verða aldrei samar aftur. Fyrsta serían var einungis sex þættir sem skyldu áhorfendur eftir á einni svakalegustu klettanöf sjónvarpssögunnar. Síðari serían byrjaði vel en eftir nokkra þætti eyðilögðu framleiðendurnir söguna með því að pína handritshöfunda til að leysa gátuna og eyðileggja misteríuna, grundvallaratriðið um að spurningar eru alltaf áhugaverðari en svörin við þeim. David Lynch yfirgaf skipið og serían fjaraði út í skrípalæti með hrapandi áhorfstölum þó hún hafi aftur orðið spennandi undir blálokin þegar Lynch var fenginn til að leikstýra lokaþættinum. En skaðinn var skeður og þættinum aflýst, undurfallega slysið og tímaskekkjan sem hann var. En sem betur fer átti hann endurkomu í þriðju seríunni 16 árum síðar þar sem Lynch fékk öllu ráðið í ósíuðum dýrðlegum furðulegheitum og frábærri tónlist.

Tengdar fréttir

Erlent

Idris Elba greindur með COVID-19

Bókmenntir

Fimm flottir krimmar í flugið

Kvikmyndir

Átta myndir sem hefðu átt að vinna Óskarinn

Sjónvarp

Morðgáta í anda Twin Peaks