Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórar ljóðabækur í lægðinni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson

Fjórar ljóðabækur í lægðinni

04.07.2019 - 10:59

Höfundar

Óvenjusólríkir dagar í upphafi sumars fóru ekki framhjá neinum. Þjóðin hefur baðað sig í sundlaugum landsins og sólargeislum, allir orðnir freknóttir og útiteknir, borgin fyllst af grilllykt og hlæjandi börn hafa lagt frá sér snjallsímana og tekið upp snúsnúböndin.

Síðustu daga hefur þó orðið breyting á. Það fór loksins að rigna víðast hvar á landinu og veðráttin orðin söm við sig með tilheyrandi þoku og gjólu. Það þýðir þó ekki að örvænta þó ekki viðri til grills - það birtir upp um síðir, en þangað til er tilvalið að verja rigningardögum innifyrir með te og góða ljóðabók. Hér verða taldar upp fjórar frábærar ljóðabækur sem eiga aldrei eins vel við og þegar regndropar og trjágreinar lemja rúðuna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett

eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur

Í glugganum á húsi einu á Vesturgötu stendur Trúðu á töfrana. Það er ekki laust við að maður finni sig knúna til þess þegar maður sér þessi orð skrifuð enda virðist húsið vera lævi blandið, einhver töfraljómi umlykur það líkt og skáldið sem þar býr. Elísabet Kristín Jökulsdóttir, seið-, gjörningalista- og skáldkona virðist stundum ekki vera af þessum heimi. Henni tekst venjulega að hrista upp í hverri samkundu sem hún heiðrar með nærveru sinni. Þegar hún fór til dæmis í forsetaframboð breyttust stífar umræður um Icesave og stjórnaskránna sem hrundu af vandlega máluðum vörum fólks í stífpressuðum drögtum og jakkafötum í eitthvað óþægilega satt og gáskafullt. Elísabet deildi reynslu sinni af geðhvörfum í framboðsumræðum, líkti embættinu við lafandi lim og gantaðist enda hlaut hún langflest atkvæði í kosningunni um skemmtilegasta frambjóðandann. Hún er einnig eitt skemmtilegasta skáldið. 

Ljóðabók hennar Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þar gerir Elísabet minna af því að grínast en í forsetaframboðinu. Hún segir þar á nístandi og opinskáan hátt frá ofbeldissambandi, en þó að vegferðin sé átakanleg óma sigurlúðrar undir sem ágerast eftir því sem líður á lesturinn. Ljóðin eru fullkomin aflestrar á votum sumardögum, þrátt fyrir þungbúin ský og kaldan norðanvind þá birtir til um síðir. 

Tilhugalífsvetur

Í tilhugalífinu snjóar, snjónum kyngir niður
við kveikjum á kerti og spilum á spil
lesum hvort fyrir annað í rúminu á kvöldin
snjórinn dansar og þyrlast
við leiðumst einsog börn
við leiðumst niður á botn sundlaugarinnar
og leiðumst á nóttunni þegar við sofum
hann hellir uppá kaffi og mokar snjóinn af tröppunum
við förum allt saman
út í búð og til læknis og í strætó
hann býður mér í strætóskýlið
þar sem hann talar við guð
og það snjóar
og hann kallar svefnherbergið mitt
ástarloftið

Mynd með færslu
 Mynd:

Ljóð muna ferð

eftir Sigurð Pálsson

Sigurður Pálsson ólst upp á Skinnastað í Öxarfirði í námunda við Ásbyrgi hvar hann varði  miklum tíma sem barn og dáðist að fegurðinni. Þó að hann væri borgarskáld, innblásin af margra ára dvöl sinni í Frakklandi eru ljóð hans einnig undir áhrifum frá íslenskri náttúru og bernsku hans. Þau einkennast af ákafa, heimspekilegri íhugun og lifandi sviðsetningum; mannlífi í stórborginni og í senn útsprungnu brumi í ilmandi skógi. Undrun yfir stórbrotnum skynheimi. 

Miðbær Reykjavíkur er tómlegri án Sigurðar Pálssonar sem gekk svo oft um glottandi, fjaðurmagnaður í hreyfingum með kaskeiti og Burberry-trefil og kryddaði þannig smáborgina með vænum skammti af París. Alls sendi Sigurður frá sér sextán ljóðbækur en síðasta bók hans Ljóða muna rödd kom út árið 2016. Sigurður var margverðlaunað ljóðskáld en hann hlaut meðal annars Fálkaorðuna á nýrársdag 2017 fyrir áratugaframlag til íslenskra bókmennta og menningar. Ljóð muna ferð geymir úrval ljóða eins okkar ástkærasta ljóðskálds, Parísarmannsins sem færði þjóðinni hlutdeild í sínum póetíska lífsþorsta og undrun. Júlíljóð er sérlega viðeigandi á rigningardegi í júlí.

Júlíljóð

Tunglið er heiðgulur ostur
á djúpum júlídiski
og vínið svona blátt
eins og hafið í glasi Hómers

Hún kemur þarna gangandi
heit eftir daginn
á kaffistéttinni
heitri eftir daginn

Öldurnar reyna að ganga á land
til þess að kyssa hana
Menn gera hvað sem er:
danskennarinn býðst til þess
að keyra hana heim
ökukennarinn býður henni
á dansleik
Það snýst allt í hringi
kringum hana

En hún sest hjá Hómer
þau borða tunglið
drekka hafið

Í stjörnukyrrðinni
skiptast þau á gjöfum
himins og jarðar

Mynd með færslu
 Mynd: Benedikt

Fræ sem frjóvga myrkrið

eftir Evu Rún Snorradóttur

Á dumbungslegum degi sem þessum er einnig gott að leita á náðir Evu Rúnar Snorradóttir og hennar einlæga og hispurslausa skáldskaps. Í ljóðum sínum fer hún með lesendur á sjoppulegar sólarstrendur á Tenerife en þess á milli þræðir hún úthverfi Reykjavíkur í strætó í rigningu, heimsækir vídjóleigur og krotar ástarljóðin sem enginn má sjá á húsvegg. Ljóð hennar eru í senn gamansöm en það er samt stutt í hryggð og óhugnað á milli hlátursroka. Hún byrjaði snemma að yrkja en átta ára gömul færði hún foreldrum sínum sitt fyrsta ljóðverk sem hún kallaði Hamarinn. Það má segja um Evu Rún, sem bæði er starfandi skáld og sviðslistakona og í dag búsett með konu sinni í Vesturbæ, að þú getur tekið stelpuna úr Breiðholtinu en ekki Breiðholtið úr stelpunni. Fræ sem frjóvga myrkrið kom út á síðasta ári og hlaut Maístjörnuverðlaunin.

Leifturmynd af hjónabandi

Þú hallar þér upp að konu þinni
í nærfataverslun á Laugaveginum á Tenerife:

Þið eruð stillimynd í óreiðu glaðværra sólbrenndra andlita.
Veitið hvor annarri skjól fyrir krefjandi tilboðum.

Svo, skyndilega
er hún hrifin frá þér.
Hverfur
eins og bæn

inn í vímu hins ágenga eðlileika.

Æðir um rekkana
einbeitt á svip
stansar svo snarlega
heldur á fjalli af þunnum nærbrókum
og segir hvassri röddu
í návist annarra ferðafélaga:

Kauptu nóg af þessum
svo hendirðu
obbanum af gömlu nærbuxunum þínum
þegar við komum heim.

Mynd með færslu
 Mynd:

Vistarverur

eftir Hauk Ingvarsson

Að lokum er ekki úr vegi að mæla með Vistarverum Hauks Ingvarssonar. Í bókinni teiknar Haukur upp dystópíska mynd af vestrænu samfélagi; það hriktir í stoðum þess og skröltir í ryðguðum iðnaðarvélunum. Tilfinningin við lestur bókarinnar minnir á rótsterkt ítalskt kaffi á efstu hæð í blokk, út um regnvotan glugga birtast andlitslausir Hagkaupsfataklæddir búkar sem þyrpast um eins og maurar. Eina stundina erum við á sólarströnd, næst gapir við okkur heimsendahryggðin í Hiroshima, hlýnun jarðar er staðreynd og þú veist þú ert ekki að gera neitt til að hjálpa. Ljóðin í bókinni eru í senn bölsýn en það má samt greina glettna einlægni í þessari samfélagsrýni Hauks sem er nístandi fyndin á köflum. Höfundur hefur áður sent frá sér skáldsögu og fræðirit en hér er á ferð önnur ljóðabók hans og fyrir hana hlaut hann Ljóðaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2018. Allt sekkur er sérlega viðeigandi í þessu óumbeðna kuldakasti, sólin er á brott og skýin hafa tekið yfir.

Allt sekkur I

alltaf eru þau á sveimi
í höfðinu á mér

hreindýrin
í þokunni

þefvís en blind
í þöglum söfnuði

hvað ætli horn þeirra nemi
þessi gríðarstóru loftnet
sem tróna yfir lággróðrinum

ilmandi lyngi
stingandi strái
kitlandi punti

þetta sokkna land
á samastað
djúpt
djúpt
í hugarfylgsnum mínum

Tengdar fréttir

Popptónlist

Fimm föstudagslög fyrir helgina

Popptónlist

Fimm funheit lög fyrir helgina

Popptónlist

Fimm frábær lög fyrir helgina