Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjölskyldurnar tvær fá endurupptöku

17.07.2019 - 15:02
Útlendingastofnun
 Mynd: ruv
Mál Sarwari- og Safari-fjölskyldnanna verða tekin til efnislegrar meðferðar hjá Útlendingastofnun og tekin afstaða til þess hvort þau hljóti vernd hér á landi, burtséð frá því að þau hafi þegar hlotið vernd í Grikklandi. Þetta staðfestir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður þeirra. Þess var krafist að mál fjölskyldnanna yrðu tekin upp aftur eftir að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra breytti reglugerð um útlendinga fyrr í mánuðinum.

Málin verða tekin til efnismeðferðar hjá Útlendingastofnun og metið sjálfstætt hvort þau uppfylli skilyrði um stöðu flóttafólks og hljóti vernd hér á landi, segir Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri verndarsviðs Útlendingastofnunar. 

Hann segir að málsmeðferðartíminn geti verið misjafn. Á vef Útlendingastofnunar kemur fram að hefðbundinn meðferðartími í málum sem þessum sé 230 dagar. 

Til stóð að vísa fjölskyldunum tveimur til Grikklands þar sem þær höfðu hlotið vernd þar. Sú ákvörðun var gagnrýnd þar sem aðstæður í Grikklandi þykja erfiðar. Í kjölfarið breytti dómsmálaráðherra reglugerð um útlendinga.

Útlendingastofnun er því nú heimilt að taka til efnislegrar meðferðar umsókn fjölskyldnanna þrátt fyrir að þær hafi þegar hlotið vernd í öðru ríki þar sem meira en 10 mánuðir eru frá því að umsóknir þeirra bárust hérlendum stjórnvöldum.  

Þorsteinn staðfestir að nú sé til skoðunar mál þriðju fjölskyldunnar hjá stofnuninni, á grundvelli reglugerðarbreytingarinnar, í samráði við talsmann hennar. Stofnunin geti ekki gefið upp hvaða fjölskylda það sé.